miðvikudagur, 18. janúar 2017

Með hlandið í skónum.

Í ár setti ég engin áramótaheit. Ég ætla að halda heiti síðasta árs og kaupa eins lítið af drasli og ég mögulega get en að öðru leyti strengdi ég engin heit. Ég hef hinsvegar sett mér svona mottó, lífsorð sem ég ætla að fylgja. Og ég þarf að minna sjálfa mig á þetta svona eins og fólk sem öðruhvoru spyr hvað Jesús myndi gera.

Í ár ætla ég að vera hugrökk, auðmjúk og góð. Hugrekki er eitthvað sem ég þarf meira af, til að vera meira fylgin sjálfri mér, til að breyta aðstæðum sem mér líkar ekki og til að vera meira tilbúin til að gera nýja hluti. Að vera góð er sjálfsagt og maður ætti ekki að þurfa að minna sjálfan sig á það en stundum gleymir maður sínum minnsta bróður í amstri dagsins. Auðmýktin er svo það sem er kannski einna erfiðast fyrir mig. Fyrir mér snýst auðmýkt um að viðurkenna eigin breyskleika og vanmátt og að vera þakklát. Ég stoppa oft við og þakka í auðmýkt fyrir allt það sem mér hefur verið gefið; góða fjölskyldu, vini, gáfur og gjörvileik. Og þarf svo að minna mig á að vera auðmýkri. Ekki auðvelt.

Það var svo í dag sem ég þurfti heldur betur að sýna auðmýkt og ég var all rækilega minnt á hvað ég á langt í land með það dæmi allt saman. Það var nefnilega þannig að eftir sem á daginn leið jukust líkur á að ég myndi hreinlega pissa á mig. Læri og rass er núna gersamlega ónothæf af harðsperrum þannig að ég get með herkjum og heraga einum sest á klósett. Svo vont að ég íhugaði af alvöru um stund í dag að láta frekar bara gossa heldur en að ganga í gegnum sársaukann við að setjast á dolluna.

Þetta hef ég semsagt upp úr því að kalla þjálfarnn minn "drengstaula" og fyrir að hnussa yfir "mjúkum" æfingum sem hafa ekkert upp á sig. Ég rétti því upp hendur og legg núna traust mitt á hann og ét ofan í mig allan minn hroka. Og fylli inn matardagbókina mína í bljúgri auðmýkt. Amen.

Engin ummæli: