mánudagur, 21. apríl 2008







Við fengum Hörpu í heimsókn hingað til Wrexham um síðustu helgi og fórum svo til Milton Keynes til að hitta hana og hennar slekti núna um helgina. Tilefnið að Ásta var í stuttu stoppi á Bretlandseyju og tilvalið að reyna að hittast.
Lúkas var ánægður að hitta frænku sína og gat sýnt henni allskonar ósiði, hopp og læti. Það var æðislegt að hitta Ástu og ég vona að það verði reglulegur atburður að hittast svona. Það var líka gott að sjá að það er ekki jafn langt til MK og ég hélt, vonandi að við gerum meira af heimsóknum héðan frá enda Arnar góður kokkur og þess virði að keyra í 3 tíma fyrir fylltu sveppina hans.

Við bíðum svo núna spennt eftir næstu helgi. Það berast nefnilega mikil tíðindi úr norðri. Nú hyggja amma og afi í víking og munu gera hér strandhögg með frænku að fararstjóra. Ég er með ægileg plön um skoðunarferðir hingað og þangað, en skemmtilegast verður að sýna afa og ömmu húsið mitt og Rhos þannig að þau viti loksins hvernig mitt nánasta umhverfi er.


Að lokum er hér mynd handa pabba, Lúkas sýnir vöðvana og segjist vera eins sterkur og afi. Þið afsakið hvað þetta er illa uppsett hjá mér, ég er eitthvað að eiga í vandræðum með innsetningar á myndum, finn út úr því næst þegar ég er í tövlustuði. Ég er svo svekkt yfir að vera orðin óskrifandi og hálfótalandi á íslensku að ég veit ekki hvort ég nenni að blogga mikið meira. Mér finnst eins og að ég sé að tapa hluta af sjálfri mér með þessu stami mínu.













2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Myndin af litlu frændsystkinum er ótrúlega flott þegar vel er að gáð. Það er svo mikil hreyfing og líf í henni. Lúkas harmónerar við e-a manneskju sem er að hverfa á bak við tréð og litirnir í fötum Katrínar passa við umhverfislitina.
Maður finnur fyrir næsta augnabliki. Eins og listamaður hafi verið að verki!

Guðrún sagði...

leiðr. frændsystkinunum