fimmtudagur, 11. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 24

Hvað þýðir það að vera "nógu góð"?

Ég er rosalega hissa á hversu mikið það hefur gert fyrir mig að taka þátt í þessari áskorun, að skrifa smávegis á hverjum degi. Ég fattaði á degi tuttugu að ég hafði náð tuttugu dögum þrátt fyrir að kvarta og kveina yfir því og það var svona smávegis vendipunktur fyrir mig.  Ef ég man rétt þá tekur það tuttuguogeinn daga að koma nýjum sið á fót. Og þegar ég var komin upp í tuttugu er hugsunin orðin að maður getur nú allt eins klárað.

Suma dagana (í gær til dæmis) er rétt svo hægt að telja daginn sem gild skrif. Ein setning sem er styttri en titillinn er vart gild færsla.

Sem færir mig að spurningu dagsins, hvað þýðir að vera nógu góð. Suma daga er það að skrifa eina setningu, telja það að labba út á strætóstoppistöð sem hreyfingu dagsins, og að einfaldlega mæta í vinnuna. Suma daga er meira segja þetta meira en það sem maður hefur orku í að gera.

Suma daga er það að vera nógu góð að skrifa pistil sem hreyfir við sál og vitund lesanda, hlaupa 10 km og lyfta 100 kg í réttstöðu, elda vegan kjöthleif og fá stöðuhækkun fyrir einstaklega vel unnin störf.

Að vera nógu góð er ekki málamiðlun og það er ekki að láta af því að reyna að ná toppframmistöðu. Það er ekki að gefast upp og láta duga. Að vera nógu góð er að láta gossa allan sálfræðipakkann sem maður ber á bakinu og segja nei takk, veistu hvað ég er nógu góð. Það er að láta af öllum sögunum, reynslunum og upplifunum sem segja manni að maður sé ekki nógu góð. Og að taka hvern dag fersk og ný, tilbúin að skrifa nýja sögu.

1 ummæli:

Ása Dóra sagði...

❤❤❤