sunnudagur, 21. maí 2017

Af pasta

Það verður að segjast að ég var hálffegin þegar dagur 30 var liðin. Sumar spurningarnar voru erfiðar og vöktu upp allskonar hugsanir sem ég bara hreinlega nenni ekki að díla við eða pæla of mikið í. Núna samt þegar nokkrir dagar eru liðnir og ég búin að hafa tíma til að melta hugsanir held ég að það sem upp úr standi sé þessi hugmynd að ég sé ekki nógu þakklát. Og ég á ekki við að ég sé ókurteis og segi ekki takk (þó það sé reyndar rétt líka) heldur að ég stoppa ekki við og nýt þess sem ég hef í mómentinu. Þetta er dálítið ný uppgötvun og ég þarf að hugsa þetta út og spökulera meira í því hvað þetta þýðir og sérstaklega hvað þetta þetta þýðir í samhengi við spikið. Þetta er þessi hugmynd að njóta þess sem er hér núna, frekar en að gera eins og ég á mikið til, að rjúka út í næsta og næsta og næsta, alltaf að leita að einhverju meira og betra.

Þetta kom til mín sem hugmynd í gær þegar ég var sveitt í eldhúsinu að hnoða pastadeig. Ég finn hvergi betur fyrir hvað það er gott að vera í mómentinu eins og þegar ég vinn að verkefni í eldhúsinu. Það nýjasta er pastavélin mín. Mig er búið að langa í svoleiðis í tvö eða þrjú ár núna. Sá svo á tilboði um daginn og lét slag standa. Er að fikra mig áfram með deig og aðferð en ég verð að segja að það er fátt sem færir mér heim þessa tilfinningu um að í fyrsta lagi að vinna fyrir matnum sem ég borða og svo það hvað það er mikilvægt að finna fyrir andartakinu, og það að búa til pasta.

Deigið er hart og óþjált og það tekur heilmikla vöðvavinnu að klambra því saman í höndunum. En þegar það er svo loksins orðið að mjúkum, gulum bolta gleymist harðræðið. Svo er svo ofboðslega gaman að renna því í gegnum vélina og búa til mismunandi form. Ég er búin að prófa ravíólí og svo það sem ég gerði í gær og fékk mig til að hugsa um þakklætið í andartakinu; lasagna.

Skal ég segja að þetta var besta lasagna sem ég hefi nokkurri sinni borðað? Já ég ætla að halda því fram. Takk fyrir mig.






Engin ummæli: