Aftur áhugaverð spurning, og enn gef ég mér ekki í alvörunni tíma til að grannskoða svo eitthvað gagn hafist af. Stuttlega samt þá er áhugavert að það sé spurning um mömmu. Eins og það sé gert ráð fyrir því að hegðan hvað mat og líkama varðar lærist frá móður. Og smávegis eins og það sé gert ráð fyrir að maður hafi lært einhverja ósiði frá móður.
Mamma sjálf segist hafa verið í megrun frá 1968, þá heyrði hún fyrst orðið kaloría. Ég skoða myndir af henni og sé ekki betur en að hún hafi alltaf verið alger bomba. Þvengmjó með risastór brjóst. Svona dálítið kannski eins og ég hefði átt að vera, hefði ég verið mjó.
Þó svo að ég muni ekki eftir að hafa heyrt hana banna mér eitthvað, eða segja mér að ég hafi núna borðað nóg þá hlýtur hún að hafa gert það. Og ég hlýt að hafa lært um hitaeiningar frá henni. Og það að hún hafi haft áhyggjur af línunum þó hún væri grönn og hraust hlýtur að hafa haft áhrif á mig. Ég fór jú, með henni í vikulegar mælingar í Línunni nokkuð áður en ég náði táningsaldri.
Auðvitað hlýtur það að hafa haft áhrif á mig. En hvort hún hefði getað gert eitthvað öðruvísi þannig að ég væri núna öðruvísi finnst mér ólíklegt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli