Ég finn fyrir frið og ró þegar...
Þessi setning fór eiginlega alveg með mig. Ég er búin að hugsa um þetta í allan dag og bara kemst alls ekki að niðurstöðu.
Ég verð rosalega oft eirðarlaus og ég á mjög erfitt með að festa hugann lengi við eitthvað eitt. Þessvegna á ég engin sérstök áhugamál. Ég hef aldrei nógu lengi áhuga á einhverju einu til að geta náð einhverju fram. Það er líka oft sem ég ströggla við að finna mér eitthvað til dundurs. Ég bara festi hugann ekki við neitt og dagurinn fer bara í að leiðast án þess í raun að eitthvað komi út úr því og ég ráfa bara um í leit að einhverju að gera. Á sama tíma er ég líka rosalega löt og nenni ekki að gera neitt. Þetta er ástand sem skapar hvorki frið né ró.
Þegar ég hugsa um þetta líður mér bara illa. Ég ætti auðvitað bara að vera að hreyfa mig, í hvert sinn sem mér dettur ekkert í hug að gera ætti ég bara að fara út að hjóla. Mig langar bara ekki alltaf að fara ein. Hjólreiðarnar veita því ekki frið og og ró.
Matur veitir mér bara samviskubit. Meira að segja eins og núna þegar allir skápar eru fullir af hollustu og ég er með vikumatseðilinn tilbúinn og allt er á fúllsvíng hvað hollustu varðar, þá er ég eins og tóm inni í mér. Ég hugsa og plana og er rosalega "góð" en það bara fullnægir mér ekki.
Ekki finn ég heldur fyrir friði og ró þegar ég er að borða eitthvað sem veitir meiri fyllingu, þá finn ég bara oftast fyrir samviskubiti, eða mig vantar meira.
Ég held að það sem mér detti helst í hug er mómentið sem ég sest niður á laugardagsmorgni, þegar ég er búin að þrífa húsið, og fæ mér kaffibolla og les fréttir. Það er svona móment þar sem allt er eins og það á að vera í heiminum.
Er það það sem er átt við? Er það lexían, að friður og ró er vandfundið? Eða á ég að reyna að setja frið og ró í fleiri stundir í deginum?
3 ummæli:
Ég held að friður og ró sé vandfundinn, held að ég ætti líka erfitt með að svara þessu. Kannski helst þegar ég er ein í göngutúr með sjálfri mér (sem gerist nánast aldrei) eða að synda (sem gerist enn sjaldnar). En í þau fáu skipti sem ég finn fyrir friði og ró þá líður mér vel svo ég held að það geri manni klárlega gott að leitast meira við að finna frið og ró :)
Er búin að lesa þessa dagbók þína á hverjum degi síðustu 10 daga síðan ég tók eftir að það væri aftur líf á blogginu. Finnst skrifin mjög áhugaverð og er búin að kaupa mér litla bók sem ég ætla að prófa að skrifa mína eigin dagbók í. Finnst þessar spurningar hvetja mig til að staldra aðeins við og hugsa málið. Takk fyrir að deila þinni.
Frábært, endilega prófaðu að skrifa. Það er allavega búið að hjálpa mér heilmikið :)
Mér finnst stundum að þú sért að svara spurningunum fyrir mig!!!
Skrifa ummæli