mánudagur, 5. október 2009

Ég er búin að lesa síðu eftir síðu af góðum ráðum um hvernig á að viðhalda lífstílnum. Ég er búin að setja feitu myndina af mér sem screensaver og eitt afrit á ísskápinn. Ég er farin að vitna í Winston Churchill. Ég er með skinny jeans í fanginu til að minna mig á hvað ég hef áorkað hingað til. Ég er búin að biðja Dave um að horfa á mig með vonbrigðasvip ef ég fer inn í eldhús. Ég er búin að drekka 4 lítra af vatni og 2 lítra af kaffi. Ég er búin að segja "fokk it, eitt súkkulaði skiptir ekki máli." Ég er búin að naga hnúana. Ég er semsé "having a bad day." Og já ég veit að eitt súkkulaði skiptir ekki máli, ég varð ekki tæp 130 kíló af einu súkkulaði. En ég get ekki látið undan þessu núna vegna þess að það er ekki á planinu að fá nammi í dag og ef ég fer út af plani þá bara veit ég að það verður auðveldara og auðveldara að fara út af plani. Mér finnst eins og ég sé í hættu á að verða fórnarlamb velgengni minnar. "Þú ert bara fín núna, kommon fáð´ér eitt snikkers." Ég bara vil það ekki. Ef ég fæ mér snikkers núna þá er ég búin að tapa. Hana nú. Þannig að ég skrifa og mér líður betur. Þetta er að líða hjá núna.

Þrátt fyrir að hafa verið viss um að ég hafi aldrei borðað til að deyfa/stjórna tilfinningum þá grunar mig að ég sé svona í kvöld vegna stress yfir að fara með Láka í aðgerðina. Þetta var ekkert mál en ég var samt smá nojuð. Mér finnst þetta allavega vera dálítið mikil tilviljun. En Láki er núna skögultannlaus og tilbúinn í að leyfa fullorðinstönnum að dafna og þroskast og ég er búin að sanna fyrir sjálfri mér að ég hef verkfærin til taks sem ég þarf til að berjast við djöflana mína og sigra.

Engin ummæli: