fimmtudagur, 4. júní 2015

Af ýmiskonar katastrófum

Það er alveg sama hvað ég reyni ég bara get ekki komist undir 2300 hitaeiningar yfir daginn. Það er að segja ekki án sorgar, þunglyndis, angistar og kvala. Ekki að ég sé dramatísk eða neitt. 

Þetta á ekki að koma neitt sérlega á óvart. Ef ég skoða BMR (basal metabolic rate) töluna mína fáum við 1815 hitaeiningar yfir daginn. Þetta eru hitaeiningarnar sem ég brenni bara til að framkvæma lágmarks athafnir eins og að anda og láta hjarta dæla blóði. Þegar ég svo nota Harris Benedict regluna til að reikna út lágmarks hitaeiningafjöld sem ég þarf til að viðhalda þeirri þyngd sem ég er í núna fæ ég út 2493 hitaeiningar. Það er BMR x 1.375. Ég nota 1.375 vegna þess að ég er "lightly active". Vinn skrifstofuvinnu en hreyfi mig nokkrum sinnum í viku. Líkaminn er hannaður til að viðhalda þyngd. Líkaminn hefur engan áhuga á að léttast aftur ef fituforði er aukinn. Líkaminn gerir hvað sem er til að verjast öllum tilraunum til að minnka þennan fituforða. Þess vegna er það augljósasta leiðin til að vera grannur að fitna ekki til að byrja með! 

Nei, líkami minn hefur engan áhuga á að láta frá sér eitt gramm af þessari kósý fituklæðning sem hann hefur komið sér upp. Líkami minn veit hvað er fyrir bestu og það er að verjast öllum árásum á fituforðann, alveg sama hversu kænskulegan ég tel hernaðinn vera. 

Ég er semsagt að berjast, og já við skulum nota orðið berjast, gegn óskum eigin líkama. Mér finnst þetta sérlega áhugaverð pæling. Ef það er svona ofboðslega óhollt að vera feitur, hversvegna berst líkaminn svona einarðlega gegn því að léttast? Ég reyni oft að leggja kalt mat á þetta hjá mér. Hvað get ég sagt að sé likamlega að mér sem ég get beint tengt við offitu?

Ég er með ónýt hné. Og það er enginn vafi á að 50 aukakíló í langan tíma hjálpuðu ekki til. Og ég efast ekki um að það væri betra ef ég væri 20 kílóum léttari núna. En ég er líka viss um að þau verði aldrei góð. Þau myndi halda áfram að vera ónýt þó ég væri 60 kíló. 
Ég er kannski með aðeins of háan blóðþrýsting. Ég veit það ekki, ég hef aldrei mælt hann. Ég fæ hinsvegar nokkuð oft hausverk og verð ofurþreytt og af einhverjum ástæðum tengi ég það við blóðþrýsting. En að tengja það við spik? ´Eg er ekki viss, ég þekki bara grannt fólk sem er með of háan þrýsting. 
Ég svitna í sumarhitanum. Kannski meira en ef ég væri grönn. Ég veit það ekki. Ég er að hjóla hratt og ímynda mér að grannt fólk myndi líka hitna aðeins við átökin. 
Ég er í miklu betra formi en mjög margir sem eru mun grennri en ég. Miklu betra formi.
Mér finnst ljótt að vera feit. 
Þar kom það. 
Ég get bara ekki haldið því fram án þess að blikna að mér finnist ég jafn fín núna og ég var fyrir 20 kílóum síðan. Ég var miklu fínni þá. End of. 

Aðfinnslur mínar við spikið mitt eru sem sagt fagurfræðilegar. Og líkama mínum er drullu sama um hvað mér finnst gaman að geta keypt mér kjóla í Zara. Hann kærir sig ekkert um fagurfræði. 

Líkami minn gengur svo langt í baráttu sinni við að halda í spikið sitt að hann flæðir heilann með hórmónum sem láta manni líða vel þegar maður borðar hitaeiningamagnið sem hann telur rétt og pumpar út vanlíðunarhormónum þegar maður reynir að minnka við sig. Hann nýtir hverja hitaeiningu betur en líkamar grannrar manneskju nýtir sínar. 

En ef mér finnst betra að vera mjórri en ég er núna, og það veit gvuð að ég hef reynt að vera sátt og ánægð með að vera ánægð með mig eins og ég er núna, er það eina sem mér dettur í hug að reyna að halda áfram þessum skæruhernaði mínum. Í stað þess að reyna að skera út 500 hitaeiningar á dag er kannski hægt að minnka um 100. Það er örugglega eina leiðin til að plata líkamann til að ná grunnþyngdinni niður. Ég verð sem sagt ægilega grönn og fín um áttrætt. 

Ég gæti líka reynt að breyta fegurðarskyni mínu.

Eða beðið af öllu hjarta eftir katastrófunni sem kastar mannkyninu út í hungursneyð og örbirgð þar sem ég hef nægan fituforða og get hlegið hjartanlega að þvi hversu sniðugur líkami minn var að passa svona vel upp á mig á meðan allt granna fólkið hrynur niður í hrönnum allt í kringum mig. 


Engin ummæli: