sunnudagur, 9. mars 2014

Ég er núna búin að stunda YAYOG æfingarnar samfleytt í sex vikur. Þessi tími hefur hreinlega flogið hjá. Ég er alltaf að fíla æfingarnar meira og meira. Prógrammið er að þyngjast smá saman en ég er líka aftur að verða manneskjan sem ég er í alvörunni. Þessi sem vaknar fyrir fimm til að stunda líkamsrækt. Hitt er svo að ég er líka búin að slaka aðeins á. Það skiptir ekki máli þó ég missi úr eina æfingu. Þetta snýst ekki um að vera fullkomin, þetta snýst um að sýna samkvæmni. Þetta er búið að vera erfitt, en ég er harðari af mér en svo. "It´s tough, but I´m tougher."

Maturinn verður líka stanslaust auðveldari. Það tók mig smástund en um leið og ég viðurkenndi fyrir sjálfri mér að ég er ekki ofurkjélling og að ég þarf stundum að brjóta odd af oflæti mínu og vega upp tíma versus heilsu versus tilbúnum mat. Frosið grænmeti, tilbúinn húmmus, grænmeti sem er búið að skera, foreldað kjöt, múslí í pakka. Það er kannski flottara að búa til sinn eiginn húmmús og heimatilbúið múslí er með minni sykri en ef ég hef ekki tíma þá er það skárri valkostur að fá húmmús úr dós og múslí úr pakka en að brenna út á tíma og enda uppgefin, fríka út og éta svo eigin líkamsþyngd af snickers.

Við fórum svo í morgun og keyptum nýtt hjól handa mér. Þeir ætla að setja það saman fyrir mig strákarnir í Halfords, setja á það allt aukadótið og svo get ég náð í það á miðvikudaginn. Hjólið er Carrera Crossfire, sem ég er kunnug og finnst gott. Ég keypti líka skotheldan lás á það og þeir kenndu mér trix sem læsir framdekkinu þannig að ef einhver sagar burtu lásinn og reynir að hjóla í burtu þá læsist dekkið og drulluháleisturinn myndi hreinlega fljúga fram yfir sig og vonandi brjóta á sér andlitið. Ég er kannski að bjóða heim vondu karma með að óska svona illu á drullusokkinn, en ég bara get ekki að því gert.

Fína, nýja hjólið mitt. 


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er dyggur lesandi, ég hef notið bloggsins þín í ófá skipti. Bloggið þitt hefur verið mér endalaus uppspretta að hugmyndum og líðan í tengslum við mat og hreyfingu. Mér finnst sýn þín fersk, fyndin og skemmtileg og raunsöm. Ég er gigtveik og hef verið mjög illa haldin undanfarin ár. Þökk sé nýjum lyfjum, hreyfingu og mataræði, þá er ég öll að koma til, það mikið að í kvöld fór ég út að skokka í fyrsta skipti í mörg, mörg ár. Mér leið líkt og ofurhetju jafnvel þó hlaupið hafi einungis staðið yfir í þrjár mínútur. Ég hef lengi dáðst að þér og viljað vera íþróttaofurhetja eins og þú, rífa í járn og hlaupa eða hjóla. Í kvöld, leið mér eins og ofurhetju! Takk fyrir innblásturinn í gegnum tíðina. kær kveðja, Erla Guðrún

murta sagði...

Mikið var gaman að heyra þetta Erla Guðrún, og gott að vita að þér líður svona betur. Ég er hrærð og klökk og á ekki hrósið skilið en takk samt. Þú ert ofurhetjan XX