laugardagur, 22. mars 2014

Ég efast ekki um að ég geti auðveldlega orðið 150 kiló, og það innan nokkurra mánaða. Það er bara alveg raunverulegur möguleiki. Ég hef sagt það áður að ég ætli ekki bara að gefast upp og leyfa því að gerast en ég get heldur ekki logið því að ég er ekkert sérstaklega mikið að einbeita mér að þessu sem verkefni. Ég leyfi vinnunni að komast upp á milli mín og manneskjunnar sem ég er í alvörunni. Ég er voðalega stressuð og nota það sem afsökun/tækifæri/hvaðsemer til að róa sálina og taugarnar. Og ég fitna og fitna og líður verr og verr í staðinn fyrir að gera það sem ég veit fyrir víst að róar sál og taugar og það er að borða vel og hreyfa mig meira.

Þetta kemur aftur að viljastyrk. Viljastyrkur er ónýtt afl til að reyna að nota til að komast yfir þessar stundir þegar geðveikin segir mér að það eina sem lagi það sem er að sé snickers. Maður notar nefnilega viljastyrkinn upp yfir daginn, til að vakna, til að fara í vinnu, til að taka ákvarðanir í vinnunni, til að standa við að hreyfa sig... og svo kemur þetta móment þar sem röddin í huganum segir að maður eigi það skilið að fá eitthvað gott... og viljastyrkurinn er uppurinn.

Ég veit að eitt það sem er betra en viljastyrkur er rútina. En fyrst þarf maður að koma þessari rútínu í gang. Ég þarf að leggja mig fram og ég þarf að nota tæki og tól frekar en viljastyrk.

Mitt allra, helsta sterkasta tæki eru skriftirnar. Skrifin og skriftin. Ég hef því tekið heilagt loforð af sjálfri mér að hripa eitthvað niður daglega, á hverjum degi þar til mér líður aðeins betur.Engin ummæli: