Í tvo daga í röð núna er ég búin að fá gleðistraum við hreyfingu dagsins. Allt þar til í gær var þetta búið að vera svona smávegis slen og slor, smávegis erfitt að koma rassgatinu á mér af stað. En í gær gerðist eitthvað, það hríslaðist um mig gamalkunnur testesterón straumur við eina armbeygjuna og það small eitthvað saman í heilanum á mér. Ég finnst svo gaman að vera sterk. Mér finnst geðsjúklega töff að hnykla vöðva. Mér finnst ekkert meira kúl en að geta tekið þungt og lyft því hátt. Og ég er kúl og töff og hnykla vöðvana. Þeir eru þarna ennþá, ég þarf bara að lokka þá fram með smá hrellingum og skipulögðu mataræði. Ekki málið.
Hitt er svo "að grennast er mjög erfitt verkefni og það er enn erfiðara verkefni að viðhalda því þegar kjörþyngd er náð." Svona byrjar lærð grein eftir vísindamenn við Karolinska University Hospital í Svíþjóð. Ég hefði nú svo sem getað sagt þeim þetta án doktorsgráðunnar. Það sem mér fannst hinsvegar merkilegt við greinina er að vísindamennirnir hafa fundið það út að það virðist ekki skipta máli hvernig fólk léttist, það sem skiptir máli er hvernig hugmyndafræði er mynduð við að grenna sig. Þannig er ekki neitt sérstaklega líklegra að manneskja sem léttir sig hægt og rólega haldi spikinu af sér en manneskja sem grenntist á skömmum tíma með kannski drastískari aðferðum. Báðar þessar manneskjur eru jafn líklegar til að fitna aftur. Það er hinsvegar fólk sem er með óraunhæfar tilætlanir um kjörþyngd eða með draumkenndar áætlanir um lífið eftir spik sem er líklegra til að fitna aftur en þeir sem hafa raunhæfar áætlanir um markmiðin sem þeir vilja ná.
Það er skýrt tekið fram í greininni að það er sérstaklega mikilvægur þáttur að stunda þétta sjálfskoðun. Bæði með að vigta sig reglulega ásamt því að skrá niður mat og hreyfingu. Þetta gengur líka dálítið gegn ráðleggingum flestra fagmanna sem vilja að maður vigti sig ekki. Ég veit það bara sjálf að í hvert sinn sem ég hætti að vigta mig þyngist ég hratt og örugglega. Ég get vigtað mig án þess að fara í tilfinningaspaghettí, og ég skil að ég er þyngri að kveldi en að morgni og að ég er léttari þegar ég er búin að kúka og að ég er þyngri þegar ég er á túr. En ég skil líka að þegar ég er búin að þyngjast um fimm kíló á þremur vikum þá er ég í alvörunni búin að þyngjast um fimm kíló. Fyrir mig er þetta ekki vatn, eða tilviljun eða neitt til að hunsa. Þetta er ekki "random number." Ég er undantekningalaust búin að þyngjast um fimm kíló af því að ég borðaði dós af Ben & Jerry´s cookie dough rjómaís á hverju kvöldi þessar þrjár vikur. Þegar ég vigta mig ekki get ég blekkt sjálfa mig til að trúa um tíma að það sé allt í lagi að borða þannig. Þegar ég vigta mig get ég minnt sjálfa mig á að það er bara alls ekki í lagi.
Ég skil að kona sem er 169 cm á hæð og flöktir á milli 65 og 69 kílóa þarf sjálfsagt ekki að einblína svona á vigtina og að fyrir hana eru þetta afstæðar tölur sem ættu ekki að stjórna lífinu. Og ég skil að það er óþarfi að henda sér fyrir björg ef talan á vigtinni er ekki það sem maður var að vonast eftir. En fyrir fólk eins og mig sem í alvörunni fitna um 10 kíló af hreinu spiki á nokkrum vikum er bara lífsnauðsynlegt að standa skil við vigtina. Og að segja annað er að ljúga að fólki.
Ég hélt að ég gæti hætt að vigta mig en það gengur alls ekki upp fyrir mig. Og ekki ætla ég að rífast við lærða Svía, annað væri nú. Ég held bara mínu striki, stunda mína naflaskoðun og vigta lóna.
5 ummæli:
Þarna hittirðu naglann alveg þráðbeint á höfuðið!
Ég væri til í að lesa þessa grein, ertu með tengil á hana, eða hvar birtist hún?
herna http://www.pitactief.nl/fileadmin/content/scholingen/1220_post_HBO_Overgewicht/Mathus.Remaining_Weight_loss.pdf
Takk fyrir :-)
Þetta þarf ég líka að gera. Vigta mig á hverjum morgni, ef ég geri það ekki, þá fer allt útum veður og vind og ég þarf algjörlega að fylgjast með minni stöðu. Get þyngst um 1.5 kg bara af því að hafa pasta í matinn... hræðilegt en maður verður einhvern veginn að fylgjast með sjálfum sér og reyna að halda stjórn. Ótrúlegt að lesa bloggin þín, gætir stundum verið að skrifa um mig :)
Skrifa ummæli