sunnudagur, 30. mars 2014

Ekki treysta á viljastyrk - treystu á undirbúning. Þetta er búið að vera mantran mín alla vikuna. Reyndu að hugsa upp allar mögulegar aðstæður og hvernig best væri að takast á við þær án þess að fá mér nammi eða köku. Það sem ég hafði ekki gert ráð fyrir var að líða eins og mér líður í dag. Og ég er ekki viss um að ég hefði getað búið mig undir þetta. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að ég er eiturlyfjasjúklingur og að í dag myndi fráhvarfseinkennin hefjast.

Sólin skín, ég er með strákunum mínum, það er mæðradagur og til stendur að fara með mig til Liverpool. Í léttan morgunverð á veitingastað sem mig dauðlangar til að prófa, smá verlsun og svo léttur hringur um World museum að skoða múmíur. Við förum með lest til Liverpool en svo þegar við komum svo á veitingastaðinn er allt fullt. Og ég fer í svona rosalega fýlu. Get engan vegin höndlað það. Við tvístígum um í vafa um hvort við eigum að bíða en ákveðum svo að fara eitthvað annað. Ég finn strax að ég er ekki eins og ég að mér að vera. Ekkert er "rétt" einhvernvegin. Við ráfum í reiðuleysi um borgina, finnum hvergi neinn stað til að setjast inn á, allstaðar er allt upppantað vegna mæðradagsins og eftir því sem líður verðum við öll þreyttari og pirraðri. Dave á erfitt með gang og er greinilega að berjast við sársauka og ég fyllist samviskubiti yfir að vera svona leiðinleg að verða svona sár yfir að komast ekki á veitingastað, bara af því að hann samræmist einhverjum hugmyndum sem ég hef um hvað er smart. Ég verð reiðari og reiðari, út í sjálfa mig, yfir því hvað þetta er fáranlegt að vera svona, allstaðar í heiminum er fólk að díla við alvöru vandamál og hér er ég að fá taugaáfall út af því að ég fæ ekki að borða á veitingstað sem er með töff ljósakrónur! Við reynum að fara á safnið en villumst og í stað þess að njóta bara að rölta um borgina eins og ég myndi vanalega gera er ég með enn meiri vanlíðan yfir því hvað ég er leiðinleg að draga strákana svona um.Við reynum að lokum að versla þar sem ég hafði haft hug á að kaupa diska í Keith Brymer Jones safnið mitt. Það eru að sjálfsögðu ekki til neinir diskar og við hrökklumst aftur út. Finnum loksins safnið en það er of seint. Dagurinn liðinn og við höfum rétt um hálftíma áður en lestin fer aftur heim. Frídagur, sólskin, yndisleg borg og allt ónýtt.

Ég get ekki hætt að gráta.

Og það eina sem ég get hugsað er að ég gæti lagað þetta allt með nammi. Ef ég bara fengi nammi þá gæti ég róað þessi vonbrigði með daginn. Ef ég bara fengi kökusneið þá gæti ég látið mér líða aftur vel. En ég hef ekkert, ekkert sem getur hjálpað mér með þessar tilfinningar. Ég þarf að upplifa þær allar án nokkurrar deyfingar. Vonbrigði með sjálfa mig, hvað ég er tilætlunarsöm og með allt of miklar væntingar til einhverrar "ideal" ímyndar.Hvað ég skammast mín fyrir að gráta út af svona smáatriðum þegar annað fólk á í alvörunni bágt. Reiðina yfir að hafa sóað svona frídeginum í fýlu. Reiðinni sem ég finn því mig grunar að ég sé á svona vondum stað vegna þess að ég vissi að ég myndi ekki fá mér nammi eða köku í dag. Að fráhvarfseinkennin hafi verið upprunalega orsökin fyrir því að ég tók svona illa á því þegar planið fór úrskeiðis. Að undir venjulegum aðstæðum hefði ég bara yppt öxlum og fundið annan veitingastað en af því að ég er að berjast við fráhvörfin gat ég bara ekki tekist á við þetta eins og venjuleg manneskja. Að ég sé í alvörunni svona svaðalegur fíkill.

Ef ég bara fengi að slaka á núna og fá mér eitthvað gott. Það myndi laga allt. Allt.

En ég veit líka að þá yrði ég enn sárari út í sjálfa mig á morgun. Ég hefði bæði sóað deginum og hrasað á fyrstu hindruninni. Það hjálpar ekki. Ég verð þess í stað að díla við að ég sé stundum leiðindapíka. Ég þarf að díla við að stundum samræmist lífið ekki mínum hugmyndum um það. Ég díla við það.

Engin ummæli: