fimmtudagur, 3. júlí 2008

Dave fékk símhringingu frá gömlum vini sínum úr háskóla svona óvænt í kvöld. Kevin hafði haft upp á honum eftir krókaleiðum og þeir spjölluðu heillengi saman um hvað hefði gengið á síðustu tíu árin. Af einhverjum ástæðum kom það upp að Dave hafi bætt heilmikið á sig og þótti Kev það skrýtið því hann hefur bara þekkt "mjóa Dave". Dave var feitur sem barn og unglingur en grenntist áður en hann fór í háskóla og fitnaði svo ekki aftur fyrr en hann giftist mér (Sorry ástin mín!). Mér datt þá í hug að það þekkir enginn "mjóu Svövu". Hún er kannski bara ekki til. Ég hef fengið nasasjónir af henni svona af og til en hún er aldrei kjurr lengi. Mér leikur mikil forvitni á að vita hvort hún sé öðruvísi en "feita Svava". Ég er ekki haldin neinum ranghugmyndum lengur um að vera mjór þýði að maður sé átómatískt hamingjusamur. Eða að maður þurfi ekki raka á sér fótleggina. Eða að maður hætti að sulla niður á sig tómatsósu og fötin manns hætti að krumpast eða maður hætti að prumpa. Ég geri mér grein fyrir að ég verð sjálfsagt alltaf með sósublett einhverstaðar. En ég er að vona að mjóa Svava geti hlaupið á eftir strætó án þess að vera heitt og skítug það sem eftir lifir dags. Og að hún geti beygt sig niður eftir hlutum án þess að hafa áhyggjur af því að geta ekki staðið upp aftur. Að hún hafi ekki áhyggjur af því að geta sest í klappstól án þess að brjóta hann. Að hún geti hlaupið með Lúkasi án þess að gefast upp eftir tvær mínútur. Verður hún öðruvísi manneskja bara út af því að hún getur gert þessa hluti? Mig allavega langar til að gefa henni tækifæri til að viðra sig. Hún er þarna inni í mér einhverstaðar, ég borðaði hana óvart einn daginn með einu eða tveim snickers og skolaði niður með fanta.

Engin ummæli: