laugardagur, 28. maí 2016

Af pjöllum

Ég held enn í mína fornnorrænu siði og strípast um í búningsklefanum í ræktinni. Ríf mig úr öllu og stika kviknakin í sturtu. Þurrka mér vandlega við skápinn minn og klæði mig svo. Þær hinar eiga enn erfitt með þetta, pukrast undir handklæði eða fara með nærfötin með sér í sturtuklefann og klæða sig í og úr þar. Sumar fara með allt klabbið inn á klósett og klæða sig þar. Mér finnst náttúrulega voðalega leiðinlegt ef ég særi blygðunarkennd þeirra, en mér finnst bara svo mikilvægt að allir líkamar fái sinn tilverurétt og að konur skilji að við erum allskonar og að það sé bara allt í lagi að vera ekki "fullkomin." Hvað sossum það nú þýðir. Í gær var ég búin að klæða mig í og var við spegilinn að mála mig þegar kona kemur inn og rífur sig úr öllu. Ég lenti í ægilegri klemmu við þetta. Ekki gat ég snúið mér við og hrópað glaðhlakkalega "mikið er gaman að sjá á þér pjölluna, ég sé aldrei orðið pjöllur hérna!" Ekki var skárra að glotta hálfvitalega í speglinum, reyna að ná augnsambandi og jafnvel blikka og gefa svona lítið thumbs up. Það var alveg sama upp á hverju ég reyndi að hugsa til að láta hana vita að ég væri hæstánægð með nekt, allt lét mig líta út eins og pervert. Nei, ég varð bara að þurrkuntulega klára að mála mig og þykjast ekki taka eftir henni. Svo mikið fyrir sampjöllusamstöðu. Kannski að eg prófa að segja eitthvað á sænsku næst þegar ég sé hana, bara svona til að tjékka.  

Ég hitti svo Matt, þjálfarann minn í morgun (fullklædd). Ég var búin að biðja hann um að taka mig í svona cross fit tíma, frekar en að lyfta bara. Ég lyfti fjórum sinnum í viku og þarf svo sem enga hjálp þar. Ég þarf hinsvegar að láta ýta mér út í æfingar sem ég myndi aldrei gera sjálf. Hann var hæat ánægður og lét mig púla þar til ég var algerlega búin á því. Ég varð að viðurkenna fyrir honum að ég varð brjáluð úr reiði á tímabili. Ég þoli ekki að vera í aðstöðu þar sem ég er " feita kellingin", þar sem ég er sveittari en aðrir, móðari eða greinilega í verri þjálfun. Og þó við værum bara tvö þá byrjaði ég að ímynda mér að hann bæri mig saman við aðra kúnna og ég kæmi illa út úr samanburðinum. Keppniskapið svo gífurlegt. Hann hló bara og sagði mér að nota reiðina til að þrusa út tveimur umgöngum í viðbót. Sem ég og gerði. Og eins erfitt og þetta var þá var þetta líka alveg hrikalega skemmtilegt og greinilega kominn tími fyrir mig að bæta við prógrammið. Ég nenni ekki að fokka þetta lengur í kringum 95 kíló. Er ekki tími komin á næsta stig?

Engin ummæli: