mánudagur, 30. maí 2016

Af macros

Það er til stór skrá í henni Ammríku sem heitir National weight control registry, um allar fitubollur sem hafa lést um 30 kíló að meðaltali og haldið af sér í 3 ár eða meira. Þetta er stórmerkileg skrá sem inniheldur gífurlegar upplýsingar um hegðun fitubolla. Sjálfri finnst mér að fólkið í þessari skrá sé ahugaverðasta fólkið til að rannsaka, fólkið sem tókst þetta verkefni sem flestir flaska svona á. Ég myndi eyða öllum mínum rannsóknartíma í þau, fremur en að skoða í eina mínútu í viðbót hvort maður eigi að forðast sykur eða fitu, eða lyfta eða hlaupa eða létta sig hratt eða hægt. Þetta fólk hefur svarið. Þegar ég skoða samnefnarann sést að 75% vigta sig vikulega, 78% borða morgunmat, 62% horfa minna en 10 klst á viku á sjónvarp. Að öðru leyti eru samnefnararnir mun lægri og vart nógu há prósentustig til að geta talist markhæf sem samnefnarar.
Þegar ég hugsaði málið kom líka í ljós að ég geri þessa þrjá hluti. Ég vigta mig að minnsta kosti vikulega, ég borða alltaf morgunmat og ég horfi reyndar aðeins meira en 10 stundir á viku á sjónvarp en það fer líka alltaf minnkandi. Ég ætla líka að segja að ég hafi haldið nógu miklu spiki af mér í nógu langan tíma til að vera lögleg á þessari skrá. Og ætla þessvegna að halda því blákalt fram að þegar kemur að spiki þá er ég sérfræðingur.
Eða sko, ég er sérfræðingur í Svövu Rán. Það er kannski þar sem hundurinn er grafinn. Ef þú vilt ná einhverjum tökum á spikinu þá verðurðu að verða sérfræðingur í sjálfum þér. Það er svo augljóst að hver og einn verður að finna sinn sannleika. Engin ein aðferð virkar fyrir alla. Ekki einu sinni að vigta sig, borða morgunmat og hætta að horfa á sjónvarp. 
Ég er sérfræðingur í sjálfri mér. Og ég veit hvað virkar fyrir mig. Eitt það besta er þegar ég get sökkt tönnunum í eitthvað nýtt. Ég er búin að vera að hugsa mikið um aðferðapýramídann (þar sem grunnurinn er hitaeiningar, svo bætir maður við næringarefnum, tímasetningu og að lokum bætiefnum) og hef loksins viðurkennt fyrir sjálfri mér að ég er núna tilbúin í að komast á næsta level. Ég er fullútskrifuð úr beisikkinu, að telja hitaeiningar og nú þarf ég að bæta macros við. Það er kominn tími á að ég verði enn meiri sérfræðingur. Ég er búin að hika við þetta því það er svo mikil undirbúningsvinna og skipulag sem fer í að vinna út frá macros, en ef ég segi satt frá þá veit ég um fáar manneskjur sem eru skipulagðari en ég þegar kemur að mataræði, þetta ætti að steinliggja fyrir mér. 
Um leið og ákvörðunin var tekin fylltist ég bjartsýni, áhuga og eldmóði. Allar þessar frábæru tilfinningar sem fleyta manni af stað til að byrja með. Ég veit að þetta er rétti farvegurinn fyrir mig. Ég er alltaf hamingjusömust í umhverfinu sem lyftingarfólk býr í og að vera meðvituð um macros er hluti af því. 
Ég er á leiðinni í stutta heimsókn til Íslands og þarf svo smástund til að læra meira og undirbúa mig. Ég geri því ráð fyrir að ég helli mér út í þetta af fullum kafti um miðjan júní. Mikið verður þetta næsta stig skemmtilegt.

Engin ummæli: