sunnudagur, 12. júní 2016

Löng útskýring

Við Lúkas skruppum heim til Íslands í örsnögga vikuheimsókn. Það er alltaf æðislegt að koma til Islands en þessi ferð var sérstaklega góð. Við fórum oft í sund, í Bláa Lónið, gengum Reykjadal og böðuðum okkur í heitum læk. Svo hitti ég góða vini, fór í klippingu og eyddi góðum tíma með fjölskyldunni. Hvað heilsuna varðar var ferðin líka góð. Ég tók enga törn í lakkrís og Hraunbitum, allt var gert í eðlilegu magni og án nokkurrar geðveiki. Ég hreyfði mig heilmikið en drakk líka heldur ótæpilega af áfengi. Ég leyðfi svo sjálfri mér að fara alveg yfir strikið eftir að ég kom aftur hingað heim, tók eitt kvöld í að borða allan lakkrísinn og allt súkkulaðið. Þegar ég vigtaði mig svo á laugardagsmorgun hafði ég því þyngst heilmikið og var aftur komin upp í 97 kíló.
Nokkru áður en ég fór í fríið hafði ég ákveðið að ég væri orðin nógu sjóuð til að geta tekist á við "Flexible dieting" eða "Ef það passar við næringarefnin" aðferðina. 
Það er þó nokkuð síðan ég uppgötvaði að það er engin ein aðferð, eða tegund af mat eða sérstök hreyfing, sem hjálpar meira en önnur þegar að fitutapi kemur. Það eina sem þarf að muna ef maður hefur áhuga á að brenna fitu er að maður þarf að brenna fleiri hitaeiningum en maður innbyrðir. Að því gefnu er svo frjálst val um hvað maður borðar. Matur er nefnilega bara matur. Það er enginn sérstakur matur sem verður að borða til að grennast, enginn fæða er "súper". Það eitt að fá sér chiafræ í morgunmat getur ekki töfrað spik í burtu. Hinsvegar ef manni finnst chia fræ rosalega góð, líður rosalega vel þegar maður borðar þau og gerir sér grein fyrir því að það eru næstum 500 hitaeiningar í hverjum 100 grömmum þá er það hið besta mál. Sama gildir um hvaða "kúr" sem maður ákveður að fylgja, lágkolvetna, "hreint" fæði, paleo eða lágfitu. Svo lengi sem maður velur að fylgja kúrnum vegna þess að kúrinn er þægilegur eða auðveldur fyrir mann en ekki vegna þess að maður heldur að kúrinn sjálfur sé töfrakúr.
Ég sjálf er 100% örugg um að 1700 hitaeiningar yfir daginn skila fitutapi hjá mér. Tilraunir hafa svo að auki sýnt mér að þegar ég lyfti eins og ég geri núna er betra fyrir mig að borða flestar þessara hitaeininga í formi próteins.
Það eru þrjú megin næringarefni; prótein, kolvetni og fita. Það eru fjorar hitaeiningar í hverju grammi af próteini og kolvetnum, níu í hverju grammi af fitu. Þannig telur maður frekar grömm af næringarefnum en hitaeiningar ef manni er af einhverjum ástæðum annt um að ná sérstökum árangri. 
Sem dæmi þá hef ég í hyggju að losa mig við þó nokkuð af spiki og lyfta þungum lóðum. Til að gera það sem árangurríkast er best fyrir mig að taka inn 0.8-1 gramm af próteini fyrir hvert pund sem ég veg. Ég hef áætlað að ég þurfi 176 grömm af próteini yfir daginn eða um 700 hitaeiningar. Ég vil að ég fái svipað magn af hitaeiningum frá fitu. Þar sem fita er í 9 hitaeiningum á gramm gerir það umm 78 grömm af fitu. Þetta eru um 1400 hitaeiningar. Eftir standa þar með 300 hitaeiningar, eða 75 grömm af kolvetnum til að gera 1700 hitaeiningar yfir daginn og til að ég nái markmiði mínu.
Prótein er mikilvægt fyrir uppbyggingu vöðva. Ég vil samt taka fram að það eru engar rannsóknir sem sýna að það sé betra að borða meira prótein en 1.5 á pund fyrir heavy duty lyftingakappa. Það er alger óþarfi að reyna að borða meira af því en það. 
Ég held kolvetnum lágum sem stendur til að skapa sem mest fitutap, en samt nóg til að mér líði ekki illa eða eins og ég sé að takmarka fæðuvalið of mikið. Þetta á jú, að vera geranlegt fyrir mig. Um leið og ég er komin í viðhaldsstig byrja ég að hækka kolvetnin þar til ég finn hversu mikið af þeim ég get borðað án þess að fitna. 
Mér finnst þetta bara skemmtilegt. Ég er "útskrifuð" úr hitaeiningum og er tilbúin að taka næstu tvö þrep í píramídanum. Það er hægt að gera þetta "í höndunum", allar þessar upplýsingar eru á flestum vörum og það er lítið mál að reikna þetta út. En það eru líka til milljón ókeypis prógrömm sem hjálpa manni til að gera þetta eins auðvelt og hægt er. Ég nota My fitness pal sem er frábært tæki. 
Aðal atriðið fyrir mig er að hætta að sjá mat sem einhverskonar siðferðilega mælistiku. Að ég sé góð eða vond eftir því hvernig ég borða. Það eru 25 grömm af próteini, 33 grömm af kolvetnum og 15 grömm af fitu í McChicken borgara. Það eru 25 grömm af fitu, 33 grömm af kolvetnum og 15 grömm af fitu í brúnum grjónum og kjúklingi. Svo er það bara ég sem ákveð hvort ég sé saddari eða sáttari við hvort valið um sig. Ég er allavega alveg á því að ég sé meira til í að búa í heimi sem leyfir ferð á Makkann öðruhvoru án þess að ég dæmi sjálfa mig sem siðferðislega gjaldþrota og vonda manneskju fyrir vikið. Það er hægt að borða hreinasta matseðil í heimi en ef lokatalning sýnir ekki kaloríþurrð er utséð með fitutap.
Ég er líka sannfærð um að með því að vera sveigjanleg með hvað ég borða komist ég smá saman út úr þessum megrun-örvænting-binge-megrun vítahring. Ef ég veit að ég get borðað kleinuhring án þess að "svindla" þá einfaldlega líður mér betur. Okey, það þýðir að ég klára rúmlega helming af kolvetnum dagsins og þriðjung fitunnar en það er mitt val. Sálfræðilega skiptir það mig afskaplega miklu máli að hafa val.
Ég sé þetta þannig fyrir mér að ég sé í raun að borða núna eins og ég myndi borða væri ég í heilbrigðari þyngd. Þannig er þetta ekki tímabundin kvalræðispína, heldur matseðill fyrir lífstíð.

Engin ummæli: