Mánudag og þriðjudag mætti ég eins og vanalega í lyftingar rétt um sexleytið að morgni til. Mér þykir lítið mál að vakna klukkan fimm til að mæta í rækt. Geri með glöðu geði. Leit í kringum mig á alla hina venjulegu morgunhanana og hugsaði að það væri gaman að sjá ný andlit, fólkið sem ég sé aldrei af því það mætir eftir vinnu. Fölnaði svo aðeins við tilhugsunina um að mæta eftir vinnu. Svipað gerist á þriðjudagsmorgun, ég þruma í gegnum æfingu og mæti svo hress og endurnýjuð til vinnu. Allan daginn var ég að melda með sjálfri mér hvernig þetta yrði. Hvað það væri næs að sofa til sjö jafnvel, og þurfa svo bara að vera með æfingagallann með mér en ekki allt snyrtivörusafnið, sjampó og handklæði og föt og skó til skiptanna. Ég myndi bara fara beint heim eftir tímann og sturta mig heima. Og fann fyrir vægri ógleði við tilhugsunina um hvernig rútínan mín eftir vinnu færi öll úr skorðum við þetta. Á miðvikudeginum svaf ég ekki lengi, lá upp í og velti mér aðeins. Hugsaði með mér hvað þetta væri mikil tímasóun, svona rúmgöltur. Fór svo í vinnu. Og allan daginn fylltist ég meiri og meiri skelfingu við tilhugsunina um að þurfa að gera eitthvað eftir vinnu. Og ég gerði mér grein fyrir að ég var ekki skelkuð yfir hreyfingunni, ég var meira en til í að hreyfa mig, ég bara get ekki hugsað mér að þurfa að gera hluti eftir vinnu. Eftir vinnu fer ég heim, undirbý mat morgundagsins, geri létt heimilisstörf, elda kvöldmat og svo er ég búin. Get ekki meir. Tilhugsunin um að rútínan mín fari úr skorðum þannig að ég hafi minni tíma til að plana matseðilinn, minni tíma með Lúkasi, minni tíma til að hafa allt í röð og reglu, er bara óhugsandi.
Ég var nánast farin að fá hjartaflökt af vanlíðan þegar ég kláraði vinnu og lagði af stað á lestarstöðina. Settist þar niður og beið lestarinnar eins og dæmd. Og það var eins og ég hafði verið frelsuð úr ánauð þegar mjóróma rödd ómaði úr hátalarakerfinu til að tilkynna 20 mínútna seinkun á lestinni. Eg myndi ekki ná í tímann og gæti bara farið heim. Gvuði sé lof og dýrð!!
Það er ýmislegt við þetta að athuga. Ég er afskaplega ánægð með að taka það frá þessu að ég fann hvað ég er örugg um að ég fái nóga hreyfingu. Markmiðið var í raun ekki að hreyfa mig meira eða öðruvísi, það var frekar að reyna að hrista upp í rútínunni minni. Ég veit ég mæti alltaf í ræktina, ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Hitt er svo að ég hef algerlega losnað við hrokafulla sjálfsánægjuna sem ég áður þjáðist af sem sagði að ég væri aðeins meira superior en þeir sem kjósa að sofa lengur en til fimm á morgnana. Ég dáist núna einlægt að fólki sem gerir hluti eftir vinnu. Þvilíkar súperhetjur!
Svo þarf ég greinilega að gera einhverjar æfingar sem miða að því að kenna mér að það sé í lagi að skaka rútínunni aðeins við öðruhvoru. Áráttan til að gera allt eins og í réttri röð er greinilega að nálgast sjúklegt stig. Ég er auðvitað þakklát rútínunni, hún er akkerið mitt í heilsunni, en boj ó boj ég verð að læra að fljóta líka.
Og ég verð að fjárfesta í nokkrum brjóstahöldum í viðbót.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli