sunnudagur, 19. júní 2016

Af tveimur kílóum

Það er núna rúm vika síðan ég kom heim frá Íslandi og þann tíma hef ég samviskusamlega talið macros (næringarefni) eins og ég hafði lofað sjálfri mér að gera. Það virðist vera að bera ágætis árangur því ég léttist um 2.1 kíló í vikunni. Ég finn það líka að þetta er alvöru fitutap, ekki bara vatn og prump. Innsta spikið mitt, þetta eldgamla sem umlykur minn innri við og er vanalega eins og storknuð hamsatólg, er allt að losast um og orðið mun stamara og skvapkenndara. Það er eitthvað að gerast.
Ég studdist við vefsíðu sem heitir IIFYM.com til að hjálpa til við að reikna út orkuþörf yfir daginn og hvernig er best að skipta macros niður til að ná þeim markmiðum sem ég hef sett mér.  Þetta er einfalt kerfi, maður slær inn hæð, þyngd, aldri og kyni ásamt hreyfingu og byggt á þeim markmiðum sem maður vill ná (fitutap, vöðvaukning, viðhald osfrv), og kerfið reiknar út skiptingu næringarefna. Þannig eru rúmu 1700 hitaeiningunum mínum skipt í 20% (88 grömm) kolvetni, 40% (76 grömm) fitu og 40% (176 grömm) prótein yfir daginn. Þetta er rosalega lítið af kolvetnum og ég ströggla aðeins við að ná þessu. Er oftar að klára daginn í 30/35/35. Flaska líka aðeins á að ná nógu miklu af próteini. Hvað sem því líður virðist það samt duga til að léttast þetta mikið.
Mér finnst þetta bara skemmtilegt. Ég nota My fitness pal, sem er orðinn það, minn helsti félagi, til að telja og áætla macros yfir daginn. Maður þarf að hafa smá fyrirsjá og My fitness pal hjálpar óneitanlega þar til. Fyrir utan að þetta væri heilmikil vinna að gera í höndunum svona fyrst um sinn. Ég td vissi að ég ætlaði að fá mér sveittan borgara í gærkvöldi og snickers í eftirrétt. Hamborgarabrauð og snickers eru rúm 50 grömm af kolvetnum sem þýðir að það hefði verið erfitt að fá sér full 40 grömm af hafragraut í morgunmat. En ég planaði það bara og þá er það ekkert mál.
Þá daga sem ég náði að halda kolvetnum í 20% var ég hreinlega svöng. Það virðist ekki vera sannleikur fyrir mig að fita og prótein veiti meiri saðsamri tilfinningu en kolvetni. Ég virðist þurfa að fá alla vega 90 grömm af þeim yfir daginn til að vera södd. Sem er gott að finna út, ég hef engan áhuga á lágkolvetna fæði. Ég vil einfaldlega finna út hvar jafnvægið liggur þar sem ég er södd og sæl en er samt að missa fitu nokkuð örugglega. 
Ég ætla því að leggjast í smávegis tilraunavinnu. Halda kolvetnunum í 20% í aðra viku og tjekka á hvernig mér líður. Prófa svo að auka í 30% og althuga hvort það sé betra og hvort ég léttist enn. Og halda því svo áfram þar til ég kemst að skiptingunni sem þýðir viðhald, ekki fitutap. Og þá veit ég það. 
Eins og ég sagði þá finnst mér þetta hrikalega skemmtilegt. Ég nýt þess að upphugsa matseðla sem passa við dagsmarkmiðin og mér finnst lítið mál að eyða tímanum sem þarf í að undirbúa og gera þetta vel. Ég er hinsvegar enn aðeins að berjast við hugmyndafræðina. Ég er algerlega sannfærð um að þetta sveigjanlega matarval sé rétta valið. Ég vil búa í heimi þar sem ég get fengið mér beikonborgara og snickers. Og ég er líka alveg sátt við að þó matarvalið sé sveigjanlegt þá séu tölurnar það ekki. Það er ekki nóg bara að halda sér undir 1760 hitaeiningum, þetta þurfa að vera réttu 1760 hitaeiningarnar. Ég er sátt við það út frá vísunda-og vinnulegu sjónarmiði. En ég er enn að sætta mig við að þetta þýðir að ég er enn ekki tilbúin í intuitive eating. Að ég þurfi enn (og kannski bara alltaf) að skipuleggja mig, plana og telja. Kannski það komi seinna að sleppa talningu og ég viti bara af innsæji hvað er gott fyrir mig að borða, ég veit það ekki. En sem stendur er greinilegt að svona herskipulag hentar mér best. 
Það er rosalega góð tilfinning sem fylgir því að vera rétt nærður. Að fá mat sem mér finnst góður, er rétt blanda af hollu og óhollu, hafa orku til að lyfta, hjóla og vinna og líða eins og að ég sé að gera það sem er mér fyrir bestu. Þessi vika er búin að vera eins og ein risastór ástarjátning til sjálfrar mín. 

Engin ummæli: