Ég var bara fegin. Ég get enn kallað apríl árangursmánuð, þó lítið sé. Ég var líka fegin því í ofanálag við ferðalög og frí þá tók ég líka einn dag í geðveikina mína eins og ég kalla það. Sem betur fer eru þessir dagar alltaf að verða sjaldgæfari og það var þessvegna nánast áhugavert að fylgjast með sjálfri mér. Ég vakna um morguninn og fæ mér góðan hafragraut, en öfugt við það sem gerist vanalega þá er ég ekki sátt eða södd. Ég byrja því að stika um. Fæ mér eitt ristað brauð. Enn ekki sátt. Reyni að hafa hemil á mér. Stika um aðeins meira. Fer í búðina til að kaupa grænmeti til að reyna að minnka ofsann í sálinni. Elda svo barra (sea bass) með miðjarðarhafsgrænmeti í hádegismat. Ber fram fallega og nýt að borða. Engin fróun í fisknum og á meðan ég er að ganga frá gleypi ég í mig marssúkkulaði sem var afgangur frá páskum. Helli upp á kaffi og meðan kaffið gerjast borða ég tvo flapjack sem ég hafði bakað. Ber kaffið inn í stofu og í tveimur bitum borða ég pan au chocolat sem Lúkas skildi eftir í morgunmat. Sest niður og borða einn Kindbar ("heilsu"súkkulaði-og hnetustykki) á meðan ég drekk kaffið. Þarf að gubba, hata sjálfa mig og skil hvorki upp né niður hvað gerðist. 1700 hitaeiningar á átta mínútum. Hver gerir svona lagað?
Ég get því miður ekki svarað. Ég get reynt að skilja eins vel og ég get hvað það er sem gerist en sem komið er finnst mér að þetta sé nánast eins og einhverskonar masókismi. Að mér finnist gott að refsa sjálfri mér fyrir einhverja upphugsaða glæpi. Eins og að ég sé að refsa sjálfri mér fyrir að vera feit með því að borða svona hræðilega. Sanna fyrir sjálfri mér að ég sé hræðileg manneskja. Kannski ef ég finn svarið myndi ég hætta þessu.
Svo hristi ég þessa daga af mér og byrja bara aftur í rútínuninni minni. Þungar lyftingar fjórum sinnum í viku, hjólreiðar og fallegur matur í réttum skömmtum. Eins og ekkert hafi í skorist. Eða því sem næst, ég verð að viðurkenna að þessi dagur er búinn að sitja aðeins í mér því mig langar svo til að skilja hvað er að gerast í heilanum á mér.
Ég bætti nú svo reyndar heldur vel í rútínuna í gær. Fór og hitti Matt, sem er þjálfari í ræktinni minni. Hann ætla eg að hitta einu sinni í mánuði til að passa form og fylgjast með farmför. Hann breytti rútínuninni minni aðeins, bætti HIIT inn í og breytti nokkrum æfingum í súpersetts og dropsetts. Það var alveg hrikalega skemmtilegt og ég, eins og ég er, verð nátturulega að sýna mig. Lyfti þyngra, ræ hraðar, hoppa hærra. Hvað sem er lagt fyrir framan mig geri ég aðeins meira en ég get, þvílíkur er gorgeirinn. Þetta sýndi mér þó að ég er greinilega ekki að leggja nóg í þegar ég geri æfingarnar mínar sjálf, ég get greinilega meira. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu og þarf að reyna að koma upp með aðferð sem lætur mig ímynda mér að það sé einhver að horfa á mig.
Mér datt svo í hug að ég ætti kannski bara að safna 1200 pundum, og taka svo bara tvo mánuði í að borga þjálfara til að vera með mér þrisvar í viku, borða hreint og skvabba þessu bara af. Djöfull væri það gaman.
Það er gaman akkúrat núna. Ég veit að ég gerði ýmislegt vitlaust í apríl en ég hef að minnska kosti fingurinn á því og ég veit að maí verður betri. Ekki það að apríl hafi verið algert rugl, þrátt fyrir lítinn árangur á vigtinni þá þurfti ég að pakka niður enn einum buxum því þær eru orðnar of stórar. Ég er greinilega vöðvastæltari og straumlínulagaðri en ég var fyrir mánuði síðan. Og mér líður vel. Það hlýtur að vera aðalmálið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli