fimmtudagur, 31. maí 2012

Það tók mig þangað til þessir dásamlegu sólardagar voru yfirstaðnir til að loksins elda alvöru sumarrétt. Ég get nú varla eignað mér uppskriftina, ég veigra mér meira að segja við að kalla þetta uppskrift þetta var svo einfalt. En gott engu að síður og eiginmaðurinn kallaði réttinn sumar á disk.

Ég kveikti á ofninum og stillti á 175 eða 180 gráður. Ég er með blástursofn. Svo náði ég mér í eina 15 eða 20 smátómata. Þeir voru ekki kirsuberjatómatar, til þess voru þeir of stórir, en heldur minni en venjulegir tómatar. Þá skar ég í helminga og lagði á ofnplötu með opnu hliðina upp. Svo kramdi ég hvítlauksgeira og setti út í væna slettu af ólívuoliu og penslaði svo tómatana. Svo dreifði ég dálitið af balsamic ediki yfir þá, basil, hálfri teskeið af demarara sykri, salti og pipar.


Svo náði ég í tvær kjúklingabringur, kryddaði, pakkaði inn í álpappír og stakk svo inn í ofn um leið og tómatarnir fóru inn. Svo lét ég þetta bara malla í ofninum í 45 mínútur. Sauð pasta svo það var tilbúið um leið og tómatarnir og kjúklingurinn. Þegar allt var tilbúið helltí ég vatninu af pastanu og setti svo tómatana með öllum sínum dásamlegu söfum og djúsi út í pastað og hrærði í gegn. Smá meira af pipar, balsamic og parmesan og svo kjúklingurinn með og við komin með þennan líka súper sumarsmell. Svo einfalt, svo gott.

 Og fyrst við vorum svona ítölsk var auðvitað boðið upp á Lavazza kaffi með doppio á eftir. Það má svo vera að ég hafi fengið affogato svona úr dreggjunum af kaffinu. Allt innan skynsamlegra marka að sjálfsögðu.


Engin ummæli: