þriðjudagur, 5. júní 2012

Eggja-og grænmetisbaka á grænu salati með tahini dressing.
Í dag, þennan síðasta dag þessarar löngu helgar, hef ég notað tímann vel og er búin að stússast inni í eldhúsi í mest allan dag. Ég er búin að grilla kjúkling til að eiga tilbúinn i morgun- og hádegismat,bjó til bestu salatdressingu sem ég hefi nokkurn tíman smakkað, grófplanaði matseðilinn það sem eftir lifir viku og svo betrumbætti ég gamla klassík. Það er heillangt síðan ég síðast eldaði grænmetisbökuna mína, hef grun um að ég hafi ofgert henni á tímabili. En það var bara svo mikið til að afgöngum að hún var alveg eðal til að klára allt upp. Ég setti í hana soðnar sætar kartöflur, maísbaunir og létti heilmikið á kotasælunni. Það fór líka í hana smávegis skinka. En aðal atriðið voru tómatsneiðarnar ofan á. Það er ótrúlegt hvað það breytti miklu að leggja nokkrar sneiðar af tómötum ofan á og baka með. Bæði hvað bragð og útlit snerti. Ég fékk mér sneið í hádegismat og hreinlega hlakka til að fara í vinnuna á morgun. Ekki hvað síst vegna þess að með verður grænt salat með tahini dressingu. Ég hef aldrei verið hrifin af tahini dressingum sem ég hef prófað hingað til en mér áskotnaðist krukka af tahini um daginn og ég er búin að vera að gera tilraunir síðan og er komin niður á þetta.

1/4 bolli tahini
2 mtsk góð ólívuolía
1 hvítlauksgeiri í mauki
smá salt, smá pipar
nokkrir dropar sítrónusafi
1 tsk sweet freedom (eða hunang)

Allt þeytt saman og sett út á salat i því magni sem hentar hverjum og einum. Ég nota bara örlítið og geymi í skál inni ísskáp. Allra, allra best er þetta út á gufusoðið grænmeti, brokkolí, gulrætur og blómkál til dæmis. Ég bara tárast af gleði við tilhugsunina eina. Ég sver það.

Engin ummæli: