|
Kirkjan í Gresford. |
Ég skipti leiðinni heim úr vinnunni í þrjá kafla svona í huganum. Fyrsti hluti er Chester til Manchester Roundabout. Svo tekur við annar kafli í gegnum fallegu þorpin Pulford, Rossett og Gresford og til Wrexham. Þriðji kaflinn er svo með öðrum strætó frá Wrexham og til Rhosllannerchrugog (eða Rhos) þar sem ég bý. Og ég er núna búin að hlaupa alla þrjá kaflana. Einn í einu, jú víst, en samt, ég hef hlaupið þá alla. Í dag fór ég þann síðasta sem ég átti eftir, miðjuhlutann í gegnum þorpin. Ég guggnaði næstum á þessu, það var svo þétt rigning að umferðin var stopp í gegnum Chester og ég var komfý kósí í þægilegu sæti í strætó í miðjum spennandi kafla á Kóbóinu mínu. En svo þegar við vorum komin yfir Manchester Roundabout var hætt að rigna, ég var í hlaupagallanum og við vorum komin yfir vegbútinn þar sem er ekki hæft fyrir gangandi vegfarendur. Ég minnti sjálfa mig á að þetta er ekki valkostur, þetta er það sem ég geri. Það er svo langt síðan ég hef sagt svoleiðis setningar við sjálfa mig. Ég er búin að eyða svo löngum tíma í að gefa sjálfri mér valkosti. Án þess að skilja að ég var stanslaust að velja að halda áfram að meiða sjálfa mig. Stundum hlakkaði í mér þegar ég fékk mér of mikið að borða, svona eins og ég væri að gefa öllum sem hafa bannað mér að borða eða horft á mig með vandlætingarsvip fokkmerki. En það er algerlega orðið ljóst að eina manneskjan sem fær að sjá fokkmerkið er ég sjálf. Þannig að ég smeygði á mig bakpokann, hoppaði út úr strætó og lagði af stað. Og eins og alltaf sá ég ekki eftir því þegar ég var komin af stað. Það er svo gaman að hlaupa um nýjar götur og ekki skemmir fyrir hvað allt er fallegt þarna í Cheshire. Og nú er bara að reyna að tengja saman kaflana og lengja leiðina. Hálfmaraþon. Bara rétt sí sonna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli