þriðjudagur, 26. júní 2012

Franskar kartöflur! má vera að þið hrópið upp yfir ykkur í forundran! Hvað er hún eiginlega að spá? Að bjóða upp á franskar í matinn svona á þriðjudagskvöldi? Og vanalega væri það líka alveg forkastanlegt að gera slíkt og ég myndi sjálfsagt ekkert vera neitt að flíka því. En hlutirnir eru ekki alltaf einfaldir og stundum er hægt að draga vitlausar ályktanir. Þetta eru nefnilega ekki kartöflur. Og því síður að þær komi frá Frakklandi. Nei, hér er um að ræða hollenska rófu. Já, ég sagði rófu. Ég hef hingað til einungis fengið rófu með einhverju sem er harðíslenskt eins og út í kjötsúpu, eða stappaða með saltkjöti og soðna með saltfiski (umm saltfiskur....ætli ég gæti búið til minn eiginn nætursaltaðan ef ég finn góðan þorsk einhverstaðar?). Ég átti til þessa einu rófu af einhverjum ástæðum og datt í hug að prófa að skera hana niður í báta og baka í ofni. Hélt helst að hún myndi kannski verða eins og bakað grasker. En þegar ég skar hana niður minntu bútarnir mig á franskar og ég ákvað að skvetta yfir smá ólívuolíu og krydda svo með síserall (season all) og geymdi svo inni í ofni í 45 eða 50 mínútur. Og út komu þessar líka fínu "franskar". Ég hafði með breskt sausage og dýfði í chili sósu. Og fannst alveg hrikalega gott. Alltaf gaman að prófa nýtt.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Girnilegt ! ég ætla að prófa þetta...

K.kv Tóta