Would you like to supersize that sir? |
Ég er vön að byrja daginn á sætum hafragraut. Þannig skiptir litlu máli hvort ég fæ mér hrágraut eða haframúffur ég hef alltaf sett rúsínur og sæta möndlumjólk eða hlynsýróp eða hnetusmjör til að gera það sætt. Ég ákvað að prófa að borða ósætt í morgunmat til að kanna hvort það hafi áhrif á sætulöngun það sem eftir lifir dags. Þar að auki hef ég alltaf lesið að prótein haldi manni söddum lengur og að þannig sé best að byrja daginn. Ég hef þessvegna verið að fá mér eggjaböku í morgunmat. Egg, kotasæla og fullt af grænmeti bakað saman. Prótein og kolvetni. Ég finn engan mun á sætuþránni og ég er aðframkomin af hungri um það bil klukkutíma síðar. Hafragrautur heldur mér saddri fram að hádegi.
Í hádegismat fæ ég mér gommu af grænmeti, kjúklingabringu og svo hrágrautinn minn í eftirrétt. Ég bara get ekki sleppt honum. Hér er ég að taka út brauðið sem ég er vön að borða í hádeginu ásamt jógúrti og ávöxtum. Ég er líka að minnka skammtinn dálítið. Ég er pakksödd eftir hádegismatinn og verð ekki aftur svöng fyrr en um fimmleytið. Áður var ég aftur orðin svöng um þrjúleytið og þurfti að fá mér snarl. Því hef ég getað sleppt núna.
Ég fæ svo kjöt og grænmeti í kvöldmat. Og verð aftur svöng stuttu síðar. Þannig svöng að mig verkjar í rifbeinin og meiði mig. Ég fæ mér frosin bláber með rjóma eða avókadósúkkulaði en er samt svöng. Og þarf að fara þannig að sofa.
Ég er yfirfull af orku og hef lést heilmikið þrátt fyrir að hitaeiningar séu í hærri kantinum. Ég er líka algerlega laus við að vera "bloated" (þanin) í maganum og hef engan bjúg. Ég er sannfærð um að sleppa brauði og ávöxtum að miklu leyti sé ástæðan fyrir því. Ég er líka rosalega kát yfir smjöráti og rjómaneyslu. Það finnst mér sko ekki leiðinlegt. Og eins furðulegt og það hljómar þá er ég ánægð með að vera svöng, það er svo óvanalegt fyrir mig að finna í alvörunni fyrir hungri að mér finnst það bara skemmtilegt. Hitt er svo hversu lengi mér kemur til með að finnast það og hvort það leiði að lokum til einhverskonar vitleysu en akkúrat núna finnst mér ekki eins og það verði útkoman.
Enn og aftur sanna ég þó fyrir sjálfri mér að ég sé bara ekki eins og fólk er flest og að það þýði ekkert fyrir mig að fylgja reglum og ráðum frá öðrum. Þannig er það "gefin staðreynd" að prótein og fita sé það sem haldi manni söddum sem lengst en ég er bara alveg þveröfug við það og það gaula í mér garnirnar. Það var nú alveg eftir mér að vera á skjön við allt og alla.
2 ummæli:
Spennandi tilraun, og góða skemmtun í fríinu !
K.kv Tóta
Takk takk :) xx
Skrifa ummæli