laugardagur, 30. júní 2012

Would you like to supersize that sir?
Það er voðalega mikið að gera hjá mér akkúrat núna. Ég er að skila af mér gömlu vinnunni og er rífandi í hár mitt og skegg vegna þess að mér finnst ekki neinn geta tekið við af mér og gert verkefnunum nógu góð skil. Svona er ég nú hrokafull. Ég er líka að reyna að koma heim eftir langan vinnudag og skrifa hluta af masternum. Þarf að skila inn litlu broti helst í næstu viku. Það gengur nú svona upp og ofan. Svo er ég að reyna að þrífa og pakka niður smáhlutum til að gera tilbúið fyrir málarann sem er að koma á mánudaginn til að fiffa upp á húsið. Ég er líka á fullu að hlaupa og reyna að koma Park Run í gang ásamt því að reyna að bæta við smá vöðvapumpi. Á toppnum trónir svo nýjasta tilraunin mín hvað mataræði varðar. Ég er að búa til mína eigin útgáfu af hellisbúafæðu. Mér finnst paleo (hellismannafæða) alveg rosalega áhugaverð fræði og ég er alveg tilbúin að kaupa kenningar þeirra um að líkamar okkar hafa ekki þróast eins og fæðuval okkar og að við séum hönnuð til að borða í skorpum, mest megnis prótein og fitu og að flest kolvetni eigi að koma frá grænmeti og ávöxtum fremur en frá unnum kolvetnum eins og við flest borðum núna.Mér finnst þetta allt hljóma sannfærandi. Það eru ljómandi góðar upplýsingar á þessari síðu ef einhver hefur áhuga. Þegar ég tala svo um mína útgáfu þá meina ég að ég er búin að aðlaga hitt og þetta að því sem mér hentar. Ég er nefnilega ekki hellisbúi og verð að skera minn stakk dálitið eftir þeim vexti. Ég er líka með nett ofnæmi fyrir öfgum sem þýðir að ég get ekki gert þetta 100%. Ég ætla t.d aldrei að hætta að borða grískt jógúrt. Það bara kemur ekki til greina. Eins á ég smávegi erfitt með að gefa hafra upp á bátinn þó ég sé til í að minnka neysluna aðeins. Það sem ég mest hrifin af er þessi tilraun til að skera út alla milliliði og reyna að hafa matinn minn eins ferskan og óunninn og ég mögulegast kemst upp með sem nútímamanneskja. Ég er algerlega sannfærð, og hef verið lengi, um að því nær náttúrunni sem við færum matinn okkar því betri er hann og því meira af honum getum við borðað. Og ég er afskaplega hrifin af öllu þessu sem segir að maður eigi að borða alvöru mat. Þannig á maður að borða smjör, ekki létt og laggott.

Ég er vön að byrja daginn á sætum hafragraut. Þannig skiptir litlu máli hvort ég fæ mér hrágraut eða haframúffur ég hef alltaf sett rúsínur og sæta möndlumjólk eða hlynsýróp eða hnetusmjör til að gera það sætt. Ég ákvað að prófa að borða ósætt í morgunmat til að kanna hvort það hafi áhrif á sætulöngun það sem eftir lifir dags. Þar að auki hef ég alltaf lesið að prótein haldi manni söddum lengur og að þannig sé best að byrja daginn. Ég hef þessvegna verið að fá mér eggjaböku í morgunmat. Egg, kotasæla og fullt af grænmeti bakað saman. Prótein og kolvetni. Ég finn engan mun á sætuþránni og ég er aðframkomin af hungri um það bil klukkutíma síðar. Hafragrautur heldur mér saddri fram að hádegi.

Í hádegismat fæ ég mér gommu af grænmeti, kjúklingabringu og svo hrágrautinn minn í eftirrétt. Ég bara get ekki sleppt honum. Hér er ég að taka út brauðið sem ég er vön að borða í hádeginu ásamt jógúrti og ávöxtum. Ég er líka að minnka skammtinn dálítið. Ég er pakksödd eftir hádegismatinn og verð ekki aftur svöng fyrr en um fimmleytið. Áður var ég aftur orðin svöng um þrjúleytið og þurfti að fá mér snarl. Því hef ég getað sleppt núna.

Ég fæ svo kjöt og grænmeti í kvöldmat. Og verð aftur svöng stuttu síðar. Þannig svöng að mig verkjar í rifbeinin og meiði mig. Ég fæ mér frosin bláber með rjóma eða avókadósúkkulaði en er samt svöng. Og þarf að fara þannig að sofa.

Ég er yfirfull af orku og hef lést heilmikið þrátt fyrir að hitaeiningar séu í hærri kantinum. Ég er líka algerlega laus við að vera "bloated" (þanin) í maganum og hef engan bjúg. Ég er sannfærð um að sleppa brauði og ávöxtum að miklu leyti sé ástæðan fyrir því. Ég er líka rosalega kát yfir smjöráti og rjómaneyslu. Það finnst mér sko ekki leiðinlegt. Og eins furðulegt og það hljómar þá er ég ánægð með að vera svöng, það er svo óvanalegt fyrir mig að finna í alvörunni fyrir hungri að mér finnst það bara skemmtilegt. Hitt er svo hversu lengi  mér kemur til með að finnast það og hvort það leiði að lokum til einhverskonar vitleysu en akkúrat núna finnst mér ekki eins og það verði útkoman.

Enn og aftur sanna ég þó fyrir sjálfri mér að ég sé bara ekki eins og fólk er flest og að það þýði ekkert fyrir mig að fylgja reglum og ráðum frá öðrum. Þannig er það "gefin staðreynd" að prótein og fita sé það sem haldi manni söddum sem lengst en ég er bara alveg þveröfug við það og það gaula í mér garnirnar. Það var nú alveg eftir mér að vera á skjön við allt og alla.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Spennandi tilraun, og góða skemmtun í fríinu !

K.kv Tóta

murta sagði...

Takk takk :) xx