sunnudagur, 1. júlí 2012

Jæja þá er maður búinn að rífa niður allar myndir af veggjum og pakka niður smádrasli ýmiskonar ásamt bókum og svo öllu sem er uppi við í eldhúsinu. Ég á voðalega mikið af allskonar olíum og kryddum sem ég geymi hjá eldavélinni. En nú þegar það er maður að koma til að laga skemmdir í eldhúsveggnum og mála svo allt húsið þarf víst að setja þetta allt í kassa og úr seilingarfjarlægð. Mikið ógurlega sem húsið verður eitthvað skítugt svona þegar maður sér gamalt tóbak og fitu bakvið myndir. Allt verður eitthvað svo berangurslegt og svona lítilfjörlegt. Ég er samt viss um að smá svona óþægindi með drasl í kassa verði þess virði; hugsa með sér lúxusinn, bara koma heim og allt húsið skínandi viðgert og nýmálað! Ekki amalegt það. Tilhugsunin um að þurfa að bæta þessu verkefni ofan á allt hitt hjá mér var bara óhugsandi þannig að þegar að strákurinn sem ætlar að laga skemmdirnar í eldhúsinu sagðist líka geta málað þá ákváðum við Dave að það væri þess virði að borga fyrir þetta til að eiga sumarfríið okkar til að slaka á í alvörunni. Frekar en að nota það í að mála húsið illa í fýlu yfir því að vera svona léleg í DIY.

Ég hlakka svo til þegar hann er búinn. Það ætti að taka hann fjóra daga eða svo að gera þetta þannig að þessi síðasta vika mín í gömlu vinnunni passar ákkúrat. Þegar ég klára og fer í tveggja vikna frí áður en nýja vinnan byrjar kem ég heim í nýmálað og skínandi hús. Við ætlum að nota fyrstu vikuna í að henda drasli og koma okkur aftur fyrir og jafnvel kaupa alvöru kaffivél í nýja eldhúsið og svo ætlum við að fara seinni vikuna til Lincolnshire, til að eyða vikunni á ströndinni við Cleethorpes. Ég er voðalega spennt, mikið til vegna þess að ég hef aldrei áður ferðast innan Bretlands í áttina austur-vestur, vanalega förum við allt norður-suður.

Mesta orkan í dag hefur því farið í kassana. Ég fann nú samt líka tíma til að baka súkkulaðibitamuffins. Ég fann uppskrift aftan á kókóshnetuhveitipokanum mínum og aðlagaði aðeins að grunnhugmyndum um enn frekari hollustu og ég hef bara sjaldan verið jafn ánægð með bakstur. Ég fann engan mun á þessum og á súkkulaðikökunni sem ég og Lúkas bökum stundum. Ég gerði samt þau mistök að biðja Dave og Lúkas að smakka hollar súkkulaðikökur og um leið og ég sagði orðið hollar ákváðu þeir báðir að þetta væri einhver hryllingur og neituðu að smakka. Þannig að þið verðið bara að taka mitt orð fyrir þessu. Hér er náttúrulega enn fullt af hitaeiningum en þetta eru góðar hitaeiningar og mest megnis úr góðri fitu, trefjum og próteini. Það er allavega óþarfi að vera með samviskubit yfir þessum.

Súkkulaðimuffins

1/4 bolli kókóshnetuhveiti
2 msk kakó
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk lyftiduft
Öggulítið salt

3 egg
50 ml kókósolía í fljótandi formi
3 msk hlynsýróp
10 döðlur, skornar í litla bita
30 g ósætt súkkulaði (ég nota Baker´s eða Girandelli)

Allt þurrt sigtað saman og allt blautt hrært saman og svo blandað saman í deig. Blanda svo döðlum og súkkulaði við og sett í muffinsform inn í ofn við 180 gráður í 18 mínútur. Gerir sex múffur.

Mér fundust þær ægilega góðar heitar úr ofninum með köldu mjólkurglasi. Ég ætla reyndar að hanna krem á þær og strá kókós yfir líka. Bara svona af gamni.


Engin ummæli: