sunnudagur, 8. júlí 2012


Þá er endurbótum lokið í bili og við að verða búin að setja allt á sinn stað. Þetta horn í stofunni fékk rakavörn og nýtt gifs til að slétta veggina. 
Sama hornið nýmálað. Allt annað líf. 
 
Í stigaganginum var rakavörnin líka löguð og nýtt gifs sett á vegginn. Það er rosalega hátt til lofts þarna og við höfum aldrei málað almenninlega. 

Þannig að það er ótrúlega gaman að hafa þetta allt loksins hreint og skínandi  nýmálað. 

Veggurinn í eldhúsinu sem var allur að molna í burtu. Húsið er byggt í kringum 1870 og það er kominn tími til  að dytta að því all svakalega. Verst að við Dave erum glötuð hvað DIY varðar og verðum að fá mann í öll verk. 

Hér er búið að laga vegginn, en af því að hann var svo ónýtur þá er gifsið enn að þorna. Gæti tekið 2 vikur að þorna alveg. En maðurinn kemur aftur til að klára að mála. 

Mitt fyrsta verk í nýja eldhúsinu var að sjálfsögðu að bjóða upp á nýbakað brauð í morgunmat. Fyrsta brauðið sem ég borða í tvær vikur. 

Ég er núna loksins búin að raða þannig að það er hægt að nota breakfast bar almennilega. 

Svefnherbergið fékk aðeins andlitslyftingu, málað og allar bækur teknar og rykhreinsaðar. Ótrúlegt hvað þær safna miklu ryki. Við eigum nú orðið Kindle og Kobo og ég sé ekki fram á að fleiri bækur verði keyptar. Nema kannski Pratchett. Við eigum hann allan hingað til og maður verður að halda því við.  

Svo var málað og veggir jafnaðir í milliherberginu. Það vantar núna bara nýtt á gólfið. Sennilega eina verkefnið sem er pressandi í húsinu núna. 

Bjart og fallegt og vantar bara herslumuninn á gifsið að þorna.
Það var svo ánægjulegt að fá mann til að gera þetta fyrir okkur. 
Ég er núna búin í gömlu vinnunni og komin í sumarfrí. Ég kláraði á föstudaginn og fékk falleg kort og gjafir og margt fallegt sagt við mig. Við fórum svo á pöbbinn þar sem ég hafði um lítið að velja en að verða rallhálf þar sem hvert glasið á fætur öðru var lagt fyrir framan mig. Allir vildu kaupa handa mér glas í kveðjuskyni. Við skrölluðum um Chester, fórum í karaoke og svo var dansað fram eftir nóttu. Sérlega skemmtilegt allt saman og gaman að enda á skemmtilegheitum með gömlu vinnufélögunum. Ég var frekar framlág í gær enda orðin gömul kona og þoli illa svona útstáelsi. 

Ég byrja svo í nýju vinnunni eftir tvær vikur. Og hlakka alveg voðalega til. En fyrst. Sumarfrí. Ahhhhhh.....

Engin ummæli: