Það er alltaf smávegis eins og það sé úr mér allur vindur eftir skipulagða atburði eins og hlaupið núna á sunnudaginn. Þannig fylgdi smávegis týnt tímabil eftir fyrsta 10 km hlaupið, ég fór algerlega yfir strikið eftir Bangor og þessi vika er svo búin að vera erfið. Ekki það að ég sé að troða í mig snickers, ég geri bara hrokafullu mistökin mín sem fylgja súpervikum, þ.e. ég hætti að vigta og skammtar stækka og þó ég sé að borða hollt og gott þá byrja ég alltaf að borða of mikið. Og um leið og ég borða of mikið þyngist ég. Ég bara má ekki fá mér einu grammi of mikið af nokkrum sköpuðum hlut og þá fitna ég. Og ég er ekki bara að tala um eitt kíló á vigtinni sem aðrir mættu túlka sem eina góða ferð á tojarann. Þegar ég þyngist um eitt kíló á vigtinni þá tek ég eftir því á fötunum mínum, á hringunum á fingrunum og á andlitslaginu mínu. Ég tek mark á vigtinni minni.
Það er því við hæfi að gera eitthvað til að skora á mig. Ég er ekkert sérlega mannblendin. Mér finnst rosalega erfitt að "spjalla". Ég hef afskaplega lítið að segja svona um daginn og veginn. Ég get hellt mér út í umræður um hluti sem skipta mig máli og ég er ekki feimin, ég bara kann ekki að spjalla. Og þessvegna er ég ekkert mikið að blanda geði við fólk. Ég er líka rosalega löt og nenni illa og lítið að taka þátt í starfsemi ýmiskonar. Þetta er skapgerðarbrestur sem ég tók fyrst eftir þegar ég fór í sumarbúðir á Úlfljótsvatn hjá Skátum. Ég man eftir að hafa hugsað með mér hversu kjánalegt þetta væri að ganga í svona flokk og þurfa svo að samsvara sér með stórum hópi. Ég nennti aldrei í leikfélag, eða að taka þátt í félagsstarfsemi í menntó né í háskóla. Ég bara get ekki "tekið þátt". Það er þessvegna þreföld áskorun í gangi núna. Dave benti mér á um daginn að það var náungi að auglýsa eftir fólki til að stofna hlaupagrúppu í Wrexham. Maðurinn sá fyrir sér að reyna að koma af stað því sem heitir Park Run hérna í Wrexham. ParkRun er rekið út um allt Bretland og það virkar þannig að maður getur gengið að því að klukkan 9 á laugardagsmorgni sé 5 km hlaup í gangi í einhverjum almenningsgarði og hlaupið er tímatekið. Og hann vildi fá sjálfboðaliða til að hjálpa sér að koma þessu í gang.
Ég þarf semsagt að hitta ókunnuga og spjalla. Ég þarf ekki bara að ganga í félagastarfsemi heldur þarf ég að bjóðast til að gera eitthvað til að hjálpa. Og ég þarf að hlaupa. Hversu langt út fyrir þægindahringinn er hægt að fara??
1 ummæli:
Þu ert ekki bara komin i "kvenfelag" heldur orðin formaður lika. My girl!!!
Skrifa ummæli