sunnudagur, 17. júní 2012

Ég hélt ég væri ægilega þreytt núna í eftirmiðdaginn eftir hlaup. Ekki nóg með nefnilega að ég hafi farið í hlaup og haldið upp á þjóðhátíðardaginn þá er hér feðradagur í dag og við Lúkas bjuggum til fínan hádegismat handa Dave. Ég sá orðið stofusófann fyrir mér sem áfangastaðinn seinnipartinn. Leggjast í sófann, taka góðan lúr á sunnudagseftirmiðdegi, vakna svo og horfa á boltann, klóra mér jafnvel í pungnum... En nei, ég byrja að vaska upp, svo sé ég buxur af Lúkasi sem þarf að pressa fyrir morgundaginn, svo man ég að ég ætla að hafa með mér harðsoðið egg í morgunmat og set það upp. Á meðan ég bíð eftir að eggið sjóði fer ég og næ í þvottinn sem ég stakk inn í vél í morgun og hengi upp. Spjalla við Ástu á meðan og næ mér svo í kúst og sópa stofuna og eldhúsið. Inni í eldhúsi sé ég poka af pistasíuhnetum og fæ hugljómun. Set hneturnar og lófafylli af rúsínum með teskeið af hlynsírópi í matvinnsluvél og mauka. Strái svo ristuðum kókóshnetuflögum í botninn á sílíkón muffinsformum, smyr pistasímaukinu í botninn og set svo gommu af súkkulaði avókadómúsinni þar á. Sting inn í frysti í smástund. Og ég er búin að hanna súkkulaðiostaköku. Og núna get ég lagst í sófann. Með köku.

Pístasíu og rúsínubotn...

Avókadósúkkulaðimús...

og kókósrjómi og kókósflögur. 

Engin ummæli: