|
Avókadó eitthvað í bígerð, Chai granóla tilbúið í dós. |
Skvapið er fljótt að fara þegar maður leggur sig aðeins fram. Heilt kíló síðan á miðvikudagsmorgun. Best er þó að mér finnst þetta allt saman aftur vera orðið gaman. Og ég efast ekki um að þessi eldhúsgleði spilar hér stærstan hluta. Ég skil ekki afhverju ég leyfi sjálfri mér að fara út í það að reyna að skapa fjarlægð og hatur á mat, það er svo miklu, miklu betra að leyfa mér bara að stússast í eldhúsinu. Hollustukokkar hljóta að eyða jafn miklum tíma og ástríðu í að elda og finna up hollan mat eins og Nigellur og Barefoot Comtessas þessa heims. Hvað um það. Ég byrjaði daginn á að búa til Chai kryddað granola. Chai er svart te sem er sterkt kryddað með kanil, negul, aniseed og fleirum svoleiðis kryddum og er eiginlega eina teið sem ég get drukkið. Ég reyndar set út í það flóaða og strokkaða vanillusojamjólk og sötra með mikilli ánægju þannig að það er svo sem lítið hollt eftir af því þegar ég er komin með það i mallann. Engu að síður þá er kryddblandan ægilega fín og þegar ég sá minnst á chai kryddað granola á Tastespotting datt mér í hug að í staðinn fyrir að finna til allar kryddtegundirnar þá væri kannski hægt að nota bara te ið sjálft.
Og það svínvirkaði. Ég sauð saman í potti sweet freedom, vatn, kókosolíu og te og hellti svo yfir blöndu af höfrum, quinoa, möndlum og fræjum og bakaði á vægum hita í tæpan hálftíma áður en ég setti svo líka þurrkuð epli rúsínur og kókósflögur. Þetta fannst mér gott. Kryddað og mun léttara en granólað sem ég hef verið að nota að undanförnu sem er meira hnetusmjörsbundið.
|
Avókadóálegg með spæleggi |
Ég átti enn til avókadó eftir súkkulaðimúsina og datt í hug að búa til eitthvað fínt til að setja ofan á brauðið sem ég var að baka. Einfalt sveitabrauð og mér fannst við hæfi að búa til eitthvað einfalt til að setja á það. Kramdi saman kjúklingabaunir og avókado og hrærði saman við það vorlauk, sítrónusafa, pipar og cumin og kóreander. Setti svo á brauð með salati og spældu eggi. Verð að viðurkenna að það vantaði alla dýpt í þetta og mér datt bara ekkert í hug sem myndi gera þetta betra. Nema beikon. Beikon myndi gera þetta að ljómandi áleggi. Kannski að ég nái bara í smá beikon.
Brauðið var reyndar ægilega gott. Gróft og einfalt, stökkt að utan og mjúkt að innan. Mér finnst fátt skemmtilegra en að baka brauð, það er eitthvað svo sjálfbært. Hveiti, vatn og ger. Og svo töfrarnir sem gerast þegar maður hrærir saman, hnoðar, bíður og bakar. Og út kemur ilmandi heitt brauð, sem getur verið undirstaðan undir nánast hvað sem er. Algjör galdur.
Afgangnum af deginum ætla ég svo að eyða með Kobo og dónabókinni sem ég er að lesa. Ég hef sumsé látið fallast fyrir múgæsingnum sem Fifty Shades hafa skapað og er eldrauð í framan að plægja í gegnum textann. Það er best að ég klári þetta hérna heima. Það er bara vandræðalegt að lesa í strætó. Og allt of erfitt að taka niður glósur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli