mánudagur, 3. maí 2010


Við hjónakornin skemmtum okkur konunglega á laugardagskvöldið, fórum á The Black Lion og drukkum nokkur vínglös og spjölluðum við fastagestina. Það er alltaf gaman að fara aðeins út og sjá annað fólk. Við Dave erum alltof sátt við að vera bara heima, erum allt of heimakær. Svo finnst mér líka enn gaman að fara á breskan pöbb, eftir 7 ár hérna úti er breskur pöbb enn skemmtiefni fyrir mig, hvernig er innanhorfs, fólkið sem er þar, það sem er drukkið, tónlistin, stemmningin, allt er þetta enn rannsóknarefni fyrir mig. Og það er líka alltaf gaman fyrir mig að sjá Dave í essinu sínu. Hann er svo skrafhreifinn og þetta kemur honum svo eðlilega að spjalla um allt og ekkert við ókunnugt fólk. Sunnudagurinn var svo uppfullur af sigrum og ósigrum. Ég borðaði miklu meira en planað var, en það sem ég valdi að borða var ekki svo slæmt. En í dag er ég ekki jafn róleg. Ég er búin að halda mér á plani, ekkert mál, en er alls ekki sátt við það. Mig langaði að baka köku í dag, og éta hana alla. Mig langaði EKKERT í salat og melónu. Við fórum í sund til að dreifa huganum sem var ekki góð hugmynd því ekkert gerir mig jafn svanga og sund. Engu að síður, þá komst ég í gegnum daginn, það er of seint að fá sér eitthvað núna og ég þekki hvernig þetta virkar fyrir sig hjá mér. Ég vakna á morgun og það eitt að hafa komist heil á húfi í gegnum daginn í dag þýðir að ég fyllist heilögum eldi til að velja rétt á morgun. Og svo verður það auðveldara og auðveldara. Ég dundaði mér líka aðeins við það sem mér finnst ægilega gaman að gera. Ég þykjustu keypti mér íslenski nammi. Fer á nammi.is, set heilu kílóin af nammi í innkaupakörfuna og svo þegar það kemur að því að borga þá bara smelli ég út af síðunni. Og mér líður betur. Twisted, I know, en maður bara gerir það sem maður þarf að gera.

Engin ummæli: