sunnudagur, 23. maí 2010


Ég hugsa að ég hafi sjaldan verið eins stolt af sjálfri mér eins og í dag. Þrátt fyrir að hafa hlaupið 5km á brettinu í vikunni og ég vissi að ég gæti þetta svo sem alveg þá var það eitthvað svona merkilegra að gera þetta með númerið á bringunni. Ég var líka smá nojuð yfir veðrinu, ég er ekki vön neinum stórræðum í 27 stiga hita. Alyn Waters Country Park í Llay er líka ókannað svæði fyrir mig þó það sé bara hérna rétt hjá. En þegar á svæðið var komið var ekki annað hægt en að hrífast með andrúmsloftinu, þarna voru samankomnar 1600 konur, allar í bleiku og svakalega skemmtileg stemning að skapast. Eftir smá upphitun var hlaupurum skipað fremst, í miðjunni voru svo skokkarar og þær sem ætluðu að labba aftast. Ég kom mér fyrir með skokkurunum og Dave og Lúkas fóru að reyna að taka myndir. En um leið og hlaupið hófst komst ég að því að ég var of aftarlega, allar í kringum mig röltu af stað þannig að ég tafðist heilmikið á meðan ég var að reyna að hlaupa í kringum þær allar. Eftir uþb kílómetra var þetta orðið fínt, flestar í kringum mig að hlaupa líka. Svo reyndar fór að slá í þær og aftur þurfti ég að þræða mig framhjá gangandi kellingum. Eftir þrjá og hálfan kom ég svo út úr skóginum og leiðin var yfir nýslegið gras. Mér fannst það smávegis erfitt en þegar ég var við að gefast upp sá ég skiltið; 500m! Ég trúði þessu ekki! Bara 500 metrar eftir! Ég spítti því í og þrusaði í gegnum þá og að endamarkinu. Sá Dave og Lúkas bíða eftir mér og leit á klukkuna; ég hafði gert þetta á rétt tæpum 33 mínútum. Ég hafði sagt við Dave að þetta tæki mig örugglega 45 mínútur af því að ég er um 38 að hlaupa þetta á bretti. Hann missti því af andartakinu þar sem ég kom í mark af því að hann átti ekki von á mér strax og var ekki tilbúinn með myndavélina. Sjálf skil ég ekkert í þessu. Ég hlýt að geta aukið hraðann á brettinu um heilmikið, ég get greinilega hlaupið miklu hraðar en ég geri þar. Eða þá að keppnisandinn er svona gífurlegur í mér. Hvað um það, ég verð að segja að það er gott að ég er með eyru af því að annars myndi ég brosa allan hringinn og hausinn detta af mér. Jei fyrir mér!

9 ummæli:

fangor sagði...

til hamingju! þú lítur ótrúlega vel út á þessum myndum miðað við að vera nýbúin að hlaupa 5 kílómetra, glæsileg!

Asta sagði...

Ótrúleg kona, segi ég bara með tárin í augunum... Vá, hvað ég er stolt af þér, Baban mín - Innilega til hamingju - lengi lifi stuðið!

Einvera sagði...

hahaha Ji baráttuandinn í þér kona!! Ég er stolt af þér!! *Netknús*

Ég er einmitt í c25k og hlakka svo til að geta hlaupið 5 km! :) 33 mín er geggjaður tími!! Og það er sagt að það sé "léttara" að hlaupa á bretti en úti! Þú ert bara ofurrunner kona!!

VEY VEY VEY!!

Nafnlaus sagði...

Glæsibær, frábær árangur! Nú fer ég að dusta rykið af i-podinum og af stað. Er enn í viku 3...

Kv. Una

Nafnlaus sagði...

Frábært hjá þér, 33 mín er mjög góður tími. Glæsileg mynd af þér. Nú verðum við að þefa upp e-hv hlaup þegar þú ert á Íslandi og skrá okkur :-)
Til lukku með þennan frábæra áfanga.
Love, Lína

Guðrún sagði...

Gamla settið þitt er að springa úr monti!!! Okkur finnst þetta með ólíkindum. Stelpan okkar að hlaupa.Vááá... Nú hefur pabbi þinn áhyggjur af því að verðir eins og Forrest Gump.

Harpa sagði...

Ég segi bara eins og Sibbý, maður er bara með tárin í augunum og að springa úr stolti! Áfram Svava Rán!

Hanna sagði...

Þú ert alger tittlingur!

ragganagli sagði...

Frábær árangur!! Innilega til hamingju.