miðvikudagur, 12. maí 2010

Mín versta martröð rættist í morgun. Ég gleymdi brjóstahaldaranum mínum heima. Ég trilla mér í ræktina í íþróttagallanum og tek vinnufötin með mér í tösku. En þegar ég tók upp úr töskunni var enginn haldari. Og það er ekki á boðstólum að leyfa stelpunum að vera frjálsum á meðal fólks. Ég hafði því ekkert um að velja nema að skola og vinda úr íþróttahaldaranum og fara í honum í vinnu. Ég hef áður gleymt handklæði, vindþurrkaði mér bara á handþurrku, ekkert mál, en þetta var alveg hræðilegt. Og ég sem tók svívirðilega sveitt á því á brettinu. Ég er orðin svo gömul að ég hlusta á hljóðbækur en ekki rokk þegar ég hleyp. Já, eftir nokkrar vikur með rokk í eyrunum var það bara hætt að hvetja mig áfram. Alveg sama hvað ég gróf upp; eftir eitt eða tvö hlaup vantaði mig eitthvað nýtt. Svo fór ég að hlusta á Radio 1 og morgunhaninn þar, Chris Moyles, kom mér í gegnum nokkur hlaup. En svo var það ekki nóg heldur. En svo datt ég niður á það: hljóðbækur. Og það er það sem ég hlusta á núna. Sem stendur er það The Angels Game eftir Carlos Ruiz Zafon sá er skrifaði Skugga Vindsins. Alveg merkilegt hvað ég þarf á afþreyingu að halda þegar kemur að hlaupunum. Ég get hangið á skíðavélinni í klukkutíma og bara starað út í loftið en þegar ég hleyp er ég alveg týnd án i-podsins. Kannski er það af því að ég hef í alvörunni ekki gaman af að hlaupa. Ég elska tilhugsunina um mig sem hlaupara, ég elska keppnina við sjálfa mig, við tíma og vegalengd en ég meika ekki hlaupið sjálft. Á meðan ég hleyp tel ég niður mínúturnar. En á eftir. Á eftir líður mér eins og ég sé ósigrandi, eins og í morgun þegar ég steig skjálfandi af brettinu eftir 36 mínútur, 4.3 km, 600 kalóríur og 4 12 km/klst spretti. Þegar ég geri svoleiðis veit ég að ég get allt. Nema mætt brjóstahaldaralaus í vinnuna. Það bara get ég alls ekki.

1 ummæli:

Asta sagði...

Vá, brjóstahaldara'laus' og í alltoflitluhelvítishælaskónum....! össsssssss, líst mér á'ða ;)