mánudagur, 26. september 2011

Í allan dag er ég búin að stara út um skrifstofugluggann. Veðrið var alltaf að verða betra og betra, það sem byrjaði sem frekar grámóskulegur haustmorgun var óðum að breytast í sólríkan sumardag. Ég hafði planað að hlaupa í fyrramálið en eftir því sem leið á daginn varð löngunin til að komast út meiri og meiri. Fyrsta æfingi í þessari viku er ein af þessum sem er yfirfull af valhoppi og hraðabreytingum og allskonar fram og tilbaka æfingum og ég sá fyrir mér að ég þyrfti að hafa dagsbirtu til að sjá til hvað ég væri að gera. Hér er orðið svartamyrkur klukkan 5 á morgnana þegar ég er að hlaupa. Lausnin lá þessvegna í augum úti; drífa mig út í hlaup þegar ég kæmi heim úr vinnu.

Það var ekki eftir neinu að bíða og um leið og ég kom heim dreif ég mig í gallann og út. Hitaði upp með því að hlaupa rólega í 20 mínútur og svo hófust nokkuð stífar hoppæfingar. Þegar upp var staðið hafði ég hreyft mig í 58 mínútur og farið yfir 7.66 km. Og brennt 640 kalóríum. Ekki að ég sé að telja þær svo sem. Það sem ég tel er tilfinningin eftir 10 mínútna hlaup á meðan ég er enn að finna taktinn og rétta andadráttinn. Þangað til ég finn það er ég uppfull af neikvæðum tilfinningum um að ég geti þetta ekki. En svo smellur eitthvað og ég finn rétta taktinn og ég get bara notið þess að hlaupa. Í dag fór ég alveg nýja leið, hljóp í kringum rúgbý völlinn og um skógarslóða. Sólin skein, fuglar sungu og ég fann í hverri einustu frumu líkamans hvað ég er lukkuleg manneskja.  Að ég hafi getað sleppt öllum afsökununum og bara byrjað að gera og haldið því svo áfram er í raun og veru alveg ótrúlegt. Just do it. Þetta er ekkert flóknara en það. Just do it.

Engin ummæli: