Það allra, allra besta sem ég man eftir sem lítil stelpa var það sem hét næskvöld heima hjá mér. Nice evening at home. Þá fórum við pabbi út í sjoppu, keyptum einn appolló lakkrís poka og 100 gramma Nóa Síríus súkkulaði plötu með hnetum og rúsínum. Einstaka sinnum keypti pabbi líka það sem hann kallaði eitursnakk, salt og pipar kryddað snakk frá Maruud. Svo var nammið sett í skál og við fjölskyldan horfðum saman á sjónvarpið, örugglega Crosby fjölskylduna, og höfðum það næs. Að mestu leyti er þetta góð minning, ég hef alltaf notið stunda með foreldrum mínum og bróður og mér finnst við vera góð eining. En ég man líka hversu mikilvægt það var fyrir mig að fá það hlutverk að setja nammið í skál og koma með það upp því þá hafði ég tækifæri til að éta upp úr skálinni nokkrum molum meira en þau hin. Og þessi æsingur í að fá sem mest af góðgætinu er það sem ég er enn að berjast við. Hrein og bein græðgi. Og svo það sem ég spyr sjálfa mig stanslaust að hvaðan þessi æsingur kemur. Var það af því að meira segja á þessum aldri var ég búin að gera mér grein fyrir náttúrulögmálinu sem segir að fyrir hverja megrun er óhjákvæmilegt ofát? Að það að gera sætindi að forboðna ávextinum bjagaðist viðhorf mitt svona svakalega? Allavega, þetta er núna stóra verkefnið mitt. Að taka forboðna stimpilinn af sætindum til að sannfæra sjálfa mig um að ég þurfi ekki að oféta þau þegar ég fæ, að nammið verði alltaf til og að ég geti fengið mér hvenær sem ég vil. Ég eigi bara að fá mér þangað til ég er södd. Þetta hefur gengið illa. Það er ekkert smávegis verkefni að breyta 30 ára gömlum hugsunarhætti. En ég ætla ekki að gefast upp.
Svo var það hitt. Ég fékk Appolló lakkríspoka og Nóa súkkulaði sent frá Íslandi um daginn. Og pokinn er agnarsmár. Það eru tvær lúkur í honum, ef það. Súkkulaðið hafði reyndar þyngst um 50 grömm, er orðið 150 gramma stykki. Deildu þessu á 4 og þetta er ekkert mikið nammi. Ég skil ekki alveg afhverju ég var með samviskubit yfir þessu í gamla daga. Ef maður vissi þá sem maður veit núna og allt það...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli