þriðjudagur, 13. september 2011

Ég eignaðist um daginn tvær nýjar hlaupapeysur. Báðar eru langerma til að geta hlaupið án þess að verða of kalt  nú þegar það er byrjað að kólna aðeins. Önnur er þunn og ætti að vera fín nú í september og október, hin er þykkari og úr einhverju töfraefni sem heldur manni heitum en er samt létt og þunn. Báðar eru þær með rennilás upp í hálsinn. Það er kannski ekkert merkilegt að eiga peysu með rennilás. En það sem er sérstakt við peysurnar er að á báðum er svona smávegis efnisflipi sem hylur rennilásinn. Og þegar ég sá það gat ég ekki annað en brosað af hamingju. Alvöru hlaupapeysur fyrir alvöruhlaupara. Þetta eru ekki bara peysur með rennilás. Þetta eru peysur sem hafa farið í gegnum þróunarferli hjá hönnuðum, hjá loftaflsfræðingumn, hjá reynslumiklum hlaupurum, hjá vísindamönnum. Allt til að passa það að litli rennilásinn nuddist ekki í hálsinn þegar maður hleypur. Og þegar rennilásinn er ekki fyrir manni þá getur maður bara hlaupið. Og hlaupið og hlaupið. Eða það var allavega það sem ég gerði í morgun. Og andvarpaði af hamingju þegar ég hugsaði um fínu peysurnar mínar sem voru samanbrotnar inni í skáp heima. Ég tími bara alls ekki að svitna í svona fínar flíkur.

Engin ummæli: