laugardagur, 10. september 2011

Lúkas byrjaði aftur í sundtímum í morgun. Sundkennsla er ekki hluti af skólastarfinu og við foreldrarnir sjáum um að finna sundtíma og koma honum þangað. Honum finnst þetta sem betur fer voðalega gaman þannig að ferð til Wrexham á laugardagsmorgni er bara eitthvað til að hlakka til. Við notum oftast tækifærið og gerum eitthvað í bænum og endum svo oftast á kaffihúsi. Það er svo gott að fá góðan kaffibolla. Í dag fórum við á Starbucks. Ég hafði haft í hyggju að fara á Caroline´s, nýtt, sjálfstætt rekið kaffihús sem ég hafði tekið eftir fyrir nokkru. Það leit voða vel og svona "lífrænt" og "local" út og virtist líka vera bakarí með fjarskafallegt brauð til sölu. En þegar við skoðuðum nánar þá var að eins og mér finnst svo oft vera með veitingastaði hér í Bretlandi, það leit allt vel út á yfirborðinu en svo ekkert í það varið þegar á hólminn er komið. Þannig var auglýst "Expresso" til sölu. Nú má kalla mig snobbaða að vilja hafa þetta rétt en espresso er stafað með essi, ekki exi. Þegar ég spurðist eftir súrdeigsbrauði þá vissi bakarinn ekki um hvað ég var að tala og þegar ég spurði svo eftir grófu og eða kornóttu brauði þá var heilhveitibrauð það besta sem boðið var upp á. (Það er í alvörunni kominn tími á að ég fari að opna mína eigin matvöru-veitingasölu.) Allt brauðið var bara hvítt brauð í hringlaga dulargerfi og ég varð enn einu sinni fyrir vonbrigðum. Við röltum því á Starbucks þar sem ég veit allavega hvað það er sem ég fæ. Þar var svo auglýstur nýr kaffidrykkur fyrir haustið; Roasted caramel macchiato. Nammi namm hugsað ég með mér um leið, kaffi, karamella, feit mjólk. Æðislegt. En sem betur fer hafði ég smá umhugsunarfrest í röðinni. Ég hef að undanförnu bara fengið mér soy latte. Er alveg hætt í þessu sæta drykkja sulli. Það var nefnilega svo komið að ég pantaði mér grande skinny caramel latte macchiato og fannst bara ekki gott. Hann var of sætur. Og ég hugsaði með mér að heilinn í mér hefur ekki náð að fylgja eftir líkamanum. Bragðlaukarnir mínir hafa breyst svo mikið undanfarna mánuði að ég er bara ekki hrifin af sætu lengur. En heilinn hugsar enn að mig langi í sætindin. Þannig ætla ég að hætta á landráð og lýsa því yfir að mér finnst Nóa súkkulaði eiginlega bara orðið vont. Það er alltof ljóst og það er í alvörunni hægt að bryðja sykurinn í því. Nei, látið mig miklu frekar fá einn eða tvo mola af Green & Black´s dökku espresso súkkulaði en heilt kíló af Nóa. En heilinn minn er ekki búinn að fatta þetta þó líkaminn sé með þetta á hreinu. Þannig langar mig rosalega mikið í súkkulaðið sem er uppi í skáp núna þrátt fyrir að vera búin að gera mér grein fyrir því að mér finnst það ekki gott. Hvaða geðveiki er það eiginlega?

Líkami minn veit nefnilega miklu betur en heilinn minn. Síðustu nokkrar vikur er ég búin að vera að gera tilraunir að lifa lífinu planlaust. Það er að segja ég borða þegar ég er svöng, og ég borða það sem mig langar í   og ég hætti að borða þegar ég er södd. Þetta er öfugt við að borða fyrirfram ákveðinn skammt af ákveðnum fæðutegundum á vissum tíma dagsins. Ég er enn skelfingu lostin yfir þessu, ég á enn rosalega erfitt með að finna fyrir hungri, og enn erfiðara með að skynja þegar ég er orðin södd. En ég er líka harðákveðin í að halda þessu áfram. Ég hef ekki lést neitt á þessum vikum  en ég hef heldur ekki þyngst eins og ég hélt að myndi gerast. Ég ætlaði ekki að treysta sjálfri mér að lifa svona planlaust. Eins og ég væri krakki eða stjórnlaus hálfviti. En það er bara svo mikilvægt að treysta sjálfum sér. Auðvitað veit ég hvað er mér fyrir bestu og það er bara af hinu góða að segja við sjálfa mig að ég sé nógu góð manneskja, nógu vel gerð til að velja það sem er best fyrir mig. Það sem hefur helst gerst er að þegar ég er svöng þá langar mig í mat. Mig langar í grófa hafra og grænmeti og gott kjöt og gæða mjólkurvöru. Þegar ég er svöng þá langar mig ekki í nammi. Og þar hef ég lokaverkefnið mitt. Ég borða þegar ég er svöng og ég borða góðan mat þegar ég er svöng og ég borða hann þangað til ég er södd. Samkvæmt þessu er ekki pláss fyrir nammi af því að mig langar ekki í það þegar ég er svöng og ég er að reyna að borða ekki þegar ég er ekki svöng. Það, eins og allt þetta hjá mér, gengur upp og ofan. Ég er t.d enn skilyrt til að hugsa að það sé laugardagskvöld og X-Factor í sjónvarpinu; þá fær maður smá súkkulaði og snakk. Og langa rosalega í það þó ég sé ekki svöng. Og fá mér það þvert betri vitund. En ég tek að minnsta kosti meðvitaðar ákvarðanir um það sem ég geri og skelli skuldinni ekki á hömluleysi eða skapgerðarbresti. Og þetta er í alvörunni allt að koma hjá mér. Eins lengi og það tekur.

1 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Ég er á svipuðum stað og þú með þyngdina að gera. Er ekki að léttast og ekki að þyngjast. Þar sem ég vil vera um 10 kg léttari þá finnst mér það ekkert spes en svo fór ég að hugsa aðeins málið og er þetta ekki bara allt í lagi. Maður er í ágætisformi (komst amk upp Mt. Fuji á föstudag), heilsan er hin besta og maður er farinn að passa í föt í venjulegum búðum.

Hvað með það þó þessi síðustu 10 hégómakíló séu ekkert að fjúka af? Svo lengi sem maður er ekki að þyngjast þá held ég að þetta sé bara allt í góðu.

Svo verð ég líka að segja að ég dáist að þér með þína staðföstu í hreinu fæði. Ég er ekki enn komin á þann stað og ég eeeelska nóa súkkulaði enn þá. En vonandi get ég með tímanum vanið bragðlaukana af þessum svakalegu sætindum og farið að borða minni sykur.