miðvikudagur, 14. maí 2003

Ég var búin að koma öllum mínum fjármálum á hreint fyrir nokkru síðan, en nú virðist sem svo að ég sé að stefna því í hættu aftur. Það kostar hellingspening að flytja til Wales og þegar peningmálin eru þannig að ekkert má út af bera til að báturinn sökkvi þá er 100.000 kall hellings ágjöf. Gunna Magga reddar þessu nú fyrir mig og allt það en einhvernvegin þannig að það er óhentugt fyrir mig. Ég hef örlitlar áhyggjur af framtíðinni, minn elskulegur á þetta nú vart skilið að eignast konu sem skuldar svona ægilega þegar hann hefur komist í gegnum lífið án þess að taka eitt einasta lán. Samt, það er náttúrulega betra fyrir mig að fá hann fremur en Íslending sem væri í sömu stöðu og ég. Með þessu móti þarf ég að borga helmingi minna. Ég verð nú samt alveg fjúkandi reið þegar ég hugsa til baráttu minnar við Tryggingarstofnun til að fá mín lágmarksréttindi í gegn, og sé svo í fréttum að þessi drulluhalar sem kosnir eru á þing aftur og aftur og aftur fá launahækkun sem sést og finnst fyrir án þess að biðja sérstaklega um það. Á meðan er mér látið líða eins og þjófi og aumingja fyrir það eitt að vilja fá eðlilegt fæðingarorlof.

Engin ummæli: