þriðjudagur, 6. maí 2003
Ég keypti mér sígarettupakka á fimmtudaginn og reykti um helgina. Fékk svo samviskubit dauðans og lagði pakkann frá mér. (Virðist samt ekki hafa tímt að henda honum). Svo áður en ég vissi af í morgun var ég búin að kveikja mér í einni yfir morgunsjónvarpinu eins og vaninn var á meðan að ég reykti. Ég er ekki byrjuð að reykja aftur, þetta er bara tímabundið setbakk, enda er jafn gróið í mig og aðra hversu slæmt það er að reykja á meðgöngu. Kona sem reykir með bumbuna út í loftið er starað á með fyrirlitnigarsvip og hún má jafnvel eiga von á að fá athugasemdir frá meðborgurum sínum. Ekki Hulduömmu þó. Ég held að henni finnist hálf kjánalegt allt umstangið í kringum barneignir í dag. Hún reykti allan tíman með sínar dætur þrjár og fór ekki til læknis fyrr en hún átti börnin. Ekkert verið að standa í þessari endalausu mæðraskoðun, gleypandi vítamín í mæðraleikfimi. Þá aftur á móti voru konur sjúklingar á meðan á barnsburði stóð. Og þurftu að dúsa heillengi á spítalanum eftir á. Núna rjúka konur heim eftir það sem er eðlilegasti hlutur í heimi. Þannig að þá var meðganga ekkert til að kippa sér upp við en fæðingin sjálf læknisefni, meðan núna er maður í smásjá í 9 mánuði en á svo að sjá sjálfur um fæðinguna. Merkilegt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli