þriðjudagur, 27. maí 2003

Mikið óskapa er nú veðrið gott. Ég gat bara ekki beðið með að sleikja sólina og var mætt í sundlaugina með gamlingjunum fyrir 7 í morgun. Jah, ég var vöknuð vegna óþæginda eftir heldur betur metnaðarfullan göngutúr í gær. Ég fór með Öddu um Óslandið sem þeir kalla og plampaði um í klukkutíma. Þegar heim var komið var mér orðið dálítið mikið illt, um mig miðja, og hríðversnaði svo þegar leið á kvöldið, þangað til að ég gat hvorki staðið né setið né legið né gengið. En sundið gerði kraftaverk og ég er a.m.k. rólfær núna. En ég hef nú samt dálitlar áhyggjur af þessu. Ég er rétt að komast á fimmta mánuð og ég er eiginlega orðin viss um að þetta sé grindargliðnun. Hvernig verð ég þá eiginlega á 7. og 8. mánuði? Mér líst alls ekki á þetta, ég sá fram á svo skemmtilega og heilbrigða meðgöngu sér í lagi af því að ég fann ekki fyrir neinni ógleði og var svo kát með þetta allt saman. Ég verð alla vega voðalega sár út í alheiminn ef staðreyndin er sú að ég sé of feit til að ganga með barn. Að ég þoli ekki aukaálagið. Pabbi virðist alla vega halda það. Vitiði, mér þætti það eiginlega bara vera óréttlátt. Að við bætist enn einn þáttur lífsins sem er erfiður einfaldlega vegna þess að maður er of feitur. Á ég í alvörunni einungis að hafa flothæfileikana sem það jákvæða við spikið? Mér er eiginlega nóg boðið. Ég veit það samt ekki. Ef ég er bara of þung ætti ég þá ekki að vera móð og þreytt og illt í hnjám og fótum? Ekki með, jah ég verð nú bara að lýsa þessu sem harðsperrum í klobbanum sem leiða út í mjaðmir. Já og svo sagði ljósmóðirin mér að ég væri komin með of háan blóðþrýsting. Ekkert hættulegt, en ég ætti að slaka aðeins á. Ég sem er svo slök! Það er hálfgerður uggur í mér.

Ég ætla að atuhuga hvort ég fái ekki launahækkun í samræmi við prófskírteini núna. Ég veit að ég á rétt á því frá og með 1. júlí en var að vona að ég gæti fengið þetta bara núna. Það hlýtur að vera hægt að fiffa það eitthvað til. Mig munar um það.

Engin ummæli: