Og enn er ég komin á Hornafjörð. Ég hélt að ég þyrfti að vera hér fram á föstudag en hann sá ljósið skólameistari og flutti fundinn fram á miðvikudag eins og allir voru búinir að sjá að var eina vitið. Ég get því glöð kvatt Hornafjörð. Ég var nefnilega að hugsa svona eftir á að það er hálf kjánalegt að vera fúl út í Hornafjörð þó ég sé ekki alveg sátt við vinnuna. Ég er búin svosem að ljúka öllu mínu af, láta lesa af rafmagninu, skila öllu af mér í vinnunni og á að fara að hitta ljósu núna á eftir til að spjalla í síðasta sinn. Og nú þarf ég bara að halla mér aftur og hugsa um allt sem gerst hefur í vetur. Þetta er nefnilega búið að vera dálítið merkilegt þetta árið. Eins lítið og hefur gerst þá hefur líka allt gerst. Ég lét veturinn líða í einshverskonar sjálfskipaðri einsemdar útlegð, en eignaðist engu að síður mann, varð ólétt og kláraði Háskólann. Þetta kemur einhvernveginn ekki alveg heim og saman. Hér hef ég sem sagt komið af stað öllu því sem merkilegast má telja í lífinu.
Dave bíður núna eftir dótinu okkar. Það lenti í Immingham í gær og svo er bara að sjá hvað þeir eru lengi að koma þessu áfram til Wales. Hann eyddi allri helginni í að mála þannig að það er allt nýmálað og fínt og hann orðinn spenntur að fá dótið svo hann geti flutt inn. Og byrjað svo að bíða eftir mér. Ég get varla beðið eftir að komast þangað til að byrja að koma okkur fyrir. Sumarið verður gott. Svo er það bar að fara á fullt að skoða hvað er best fyrir mig að gera í haust, hvaða nám er hentugast og skilar sem mestu kaupi sem fyrst?
Ég var að hugsa um að ég þyrfti að halda eitthvað útskriftar/kveðjupartý. En mér finnst ómögulegt að halda kveðjupartý, ég kem aftur í heimsókn í ágúst og vona að fólk komi sem mest í heimsókn til mín og að kveðja gerir þetta eitthvað svo sorglegt, sem þetta er ekki. Þetta er gaman og spennandi. Útskriftarpartý er kannski sniðugra, ég sé ekkert að því að gera mér glaðan dag í tilefni þess en finn bara hvorki dag né húsnæði í það. Ég vona bara að ég hafi tilkynnt fólki þetta nógu skilmerkilega til að það fari ekki framhjá neinum að ég sé búin með þennan áfanga. Besides, það er ekkert gaman ef ég get ekki drukkið kampavín að vild!
Svo verð ég að muna að taka mömmu og pabba til fyrirmyndar sem foreldri. Ef ég geri hálft eins vel og þau þá á mitt afkvæmi eftir að hafa það meira en gott. Og nú ætla ég til ljósu og skella mér í sund, hér skín sól í heiði og gott er að hafa brúna kroppinn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli