Við fórum út að borða á Hafið Bláa í gærkveldi, ég, Harpa, Rannveig og Helga. Ólína var því miður fjarri góður gamni en við skemmtum okkur nú engu að síður afskaplega vel, maturinn góður og lukkan yfir manni að drekka ekki: reikningurinn var helmingi lægri en ella. Útsýnið á staðnum er frábært og maturinn mjög góður. Mig langaði nú mest í saltfisk en þær sem eru mér eldri og vitrari bönnuðu neyslu salts vegna hækkaðs blóðþrýstings. Kjúklingurinn sem ég fékk var reyndar voða góður. Mikið er alltaf hægt að skeggræða og kannski hefur breyst aðeins umræðuefnið þar sem að þær sem fengið hafa "Móðir" barmmerkið geta nú orðið spjallað óhikað við mig enda vil ég fá að vita allt sem þær vita. Ólína sagði einmitt þegar ég heimsótti hana og hún tók fram albúm Dagrúnar Ingu: "Nú er hægt að tala við þig um þetta." Og það er mikið rétt. Við ákváðum svo að kíkja aðeins á Selfoss, í veikri von um að fá litið gamla blossa, en sáum engan nema Eirík á Pakkhúsinu. Þar vorum við vinsælar sem aldrei fyrr, hinir ýmsustu menn sem stigu í vænginn við okkur en allir þurftu þeir frá að hverfa. Umræðurnar á Pakkhúsinu voru með þeim skemmmtilegri í langan tíma; Karlmenn og Konur, Klám, kynlíf, feministar og fegurð. Og margt gáfulegt sagt. (Og mis gáfulegt reyndar líka!)
Ég öfundaði Helgu og Hörpu voðalega af því að geta farið heim til mannanna sinna, ég er orðin heldur óþreyjufull að fá að knúsa minn mann, enda er hann bestur og sætastur, þrátt fyrir fótboltaáhugann. Laugardagur í dag, og þess vegna bara sex dagar eftir.
Við pabbi fórum í Krónikuna í morgun, mér fannst ekki við hæfi að senda hann einan fyrst ég var vöknuð og ég hald að hann hafi verið feginn að losna við uppvaskið. Hann þurfti líka að lána mér fyrir matnum í gær, ég var ekki búin að fá útborgað og ekki loku fyrir það skotið að ég hefði fengið synjað. Reyndar bregður mér orðið ekkert í synjað málunum, ég fæ orðið synjað þegar ég legg inn í bankann og þá er nú mikið sagt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli