þriðjudagur, 3. júní 2003

Í gær fór ég í sónar. Ég er eiginlega orðlaus yfir þessu kraftaverki og ef ég verð stuttorð þá er það vegna þess en ekki vegna þess að mér þyki þetta ekki merkilegt. Auður kom með mér enda treysti ég mér ekki til að fara ein, svona ef eitthvað væri að. Ég mydni segja að það er nauðsynlegt að fara með einhverjum því þetta er svo stórkostlegt, svo ótrúlegt að maður verður að hafa einhvern hjá sér til að deila kraftaverkinu. Fyrst vildi ég fá að vita hvort það væri ekki í lagi með hana og ljósan skoðaði allt vel og vandlega og það er allt á sínum stað; heili, hjarta, nýru, gallblaðra, bein og allt eins og það á að vera. Hún vildi aftur á móti ekki að óathuguðu máli taka undir að þetta væri stelpa. Hún skoðaði og skoðaði en skottið snéri sér eða setti hönd fyrir eða gerði eitthvað til að fela kynfærin svo út leit fyrir að við gætum ekki séð hvort væri. Ég lá þarna hálfgrátandi/hlæjandi, alveg í skýjunum yfir að allt var í lagi og hversu hress anginn var. Var allur á iði og virtist skemmta sér konunglega. Skyndilega snéri hann sér svo við blasti pungur og ljósan sagði að vart færi á milli mála að hér væri drengur á ferðinni! Og ég sem er búin að kalla hann Karlottu í 4 mánuði! Hvað nú? Carlos? Hvað um það ég fékk myndir sem ég get ekki lagt frá mér, skoða og skoða til að sannfæra mig um að þetta sé í alvörunni að gerast. Hafði reyndar ekki staðist freistinguna og farið í frönsku búðina og keypt agnarsmáan sundgalla, sem er nú frekar fyrir strák. Merkilegt. Svo bíð ég nbú eftir að mamma komi heim, hún er sjálfsagt sú eina sem nennir að hlusta á mig og dást að myndunum út í eitt. Ég er viss um að öllum nýjum mæðrum hefur liðið svona og bið bara um þolinmæði og skilning, það kemst bókstaflega ekki neitt annað að núna, eins og ég sé sú fyrsta í sögu mannkyns sem eignast barn.

Engin ummæli: