sunnudagur, 20. nóvember 2011

Ég þarf oft að passa í mér pirringinn. Það kemur mér nefnilega ekkert við hvað annað fólk gerir og hvað því hentar best til að ná af sér einhverjum aukakílóum. Hvað veit ég svosem? Það er hálfkjánalegt að láta hluti fara í pirrurnar á sér og samræmist engan veginn minni lífsýn og heimspeki. Engu að síður þá verð ég alltaf ægilega pirruð þegar matur og ákveðnir matarkúrar komast í tísku. Ég bara skil ekki afhverju fólk sér ekki að þetta snýst um að "borða mat. Ekki of mikið af honum. Helst grænmeti." Þetta er svo einfalt. Að eltast við eitthvað sem er "fram að jólum" eða " í nóvember" eða "engin kolvetni" eða "bara grænn matur" eða það sem ég verð allra, allra pirruðust á "sjeik í hádeginu". Mér ber engu að síður skylda til að kanna allt saman. Ég get náttúrulega ekki verið með sleggjudóma byggða á mínum fordómum ef ég hef ekki rannsakað málið og það nýjasta sem ég hef verið að skoða er frummannamataræði, eða Paleo diet.

Hér er kenningin sú að forfeður okkar og mæður hafi borðað þann mat sem best hentar mannslíkamanum. Það er að segja kjöt, fisk og egg ásamt hnetum, grænmeti og ávöxtum. Ekkert kornmeti og enga mjólkurvöru. Nú hef ég ekki rannsakað þetta nóg til að geta sagt af eða á, ég veit bara út frá eigin reynslu að mataræði sem bannar mér að borða ákeðna fæðutegund er algert nó nó fyrir mig. Ég er ekki tilbúin til að gefa upp á bátinn haframjöl og gríska jógúrt. No way, no how.

Það forðar því ekki að þegar ég horfi á daglegan matardiskinn minn þá á ég alltaf í mesta basli við að fá rétt hlutföll á prótein og kolvetni. Ég er kolvetnakelling mikil. Eins og algengt er með fitubollur. Mér þótti þessvegna ekkert að þvi að skoða Paleo með það í huga að fá hugmyndir að kolvetnaminni uppskriftum.

Granola er í algeru uppáhaldi hjá mér. En ég hafði um daginn séð hugmynd (ég finn ekki greinina þar sem ég sá þetta og gerði uppskriftina bara eftir besta minni) að granola sem notaði bara hnetur og fræ, sleppti alveg haframjölinu svona í anda frummanna og datt í hug að það gæti verið gaman að prófa. Þetta tókst alveg ljómandi vel, svo vel að ég efast um að ég borði mikið af þessu í morgunmat, hér er frekar um að ræða eftirrétt eða millimálasnarl.


1/2 bolli döðlur, gróft skornar
1/2 bolli vatn
1/2 tsk kanill
1/2 tsk vanilludropar

Allt sett í pott og mallað þar til hægt er að mauka döðlurnar með gaffli. Sett til hliðar til að kólna aðeins.

Hita ofn í 160 gráður.

2 bollar möndlur í hýði
1/2 bolli aðrar hnetur (mér finnst voðalega gott að nota heslihnetur og pistasíur, ekki jafn hrifin af valhnetum)
1 bolli fræ (ég nota blöndu af sólblóma, grasker, sesam og furuhnetum)

1/2 bolli kókós

Hneturnar gróft skornar og allt nema kókós blandað saman í skál, döðlumaukið blandað við þar til allt er þakið í því. Sett á bökunarpappír á plötu inn í ofn í hálftíma. Fylgjast vel með því þetta getur auðveldlega brunnið. Taka út og blanda kókós strax við. Nota svo út á jógúrt eða sem snakk til að maula á. Ég gerði þetta ægileg fínt í morgun, setti lag af granola og svo lag af jógúrti og jarðaberjum nokkrum sinnum. Jógúrtið lak svo aðeins til áður en ég náði að taka fína mynd. Engu að síður, þá var þetta nú varla morgunmatur, eiginlega ætti þetta að vera eftirréttur.

Engin ummæli: