sunnudagur, 20. nóvember 2011

Það rosalega margt gott að segja um að léttast. Heilsan og líðan líkamlega er öll önnur. Til lengri tíma litið er það afskaplega mikilvægt. En það eru líka atriði sem eru kannski ekki jafn göfug eða háleit sem engu að síður eru svakalega skemmtileg. Ég er að tala um að vera loksins orðin gella. Ég hef alltaf passað mig að vera snyrtileg. Æfði mig árum saman í að stíga létt til jarðar, bera mig teinrétt og bera af mér góðan þokka. (Kannski að ég hefði átt að eyða tímanum sem ég eyddi í að æfa göngulag í að fara út að hlaupa!) En að lokum var alltaf komið að því að það var bara svo mikið sem ég gat falið og hulið og 130 kíló sitja ekki fallega á neinum líkama alveg sama hversu fislétt göngulagið er. Þannig að núna, þó ég sé enn í stærð UK16 finnst mér ég vera eins sexý og sæt og Claudia Schiffer. Kannski að ég ætti bara að halda mér hér, ég veit um konur sem eru í stærð 8-12 og eru samt alls ekki ánægðar með sjálfar sig, Craazyy!

Ég er vön því að vera alveg takmörkuð við hvað er í boði til að fara í. En nú þegar það takmark minnkar og úrvalið magnast er ég jöfnum höndum skríkjandi af gleði og lömuð af valkvíða. Ég veit orðið nokkurn vegin hvað ég vil og hvaða stíl ég er hrifnust af og get núna loksins passað í  föt. Ég á það samt enn til að kaupa bara eitthvað rugl til að prófa hvort mér líki. Ég er voðalega mikil kjólakerling, er eiginlega alltaf í kjól og líður vel í þeim. 

Bankagrúppan mín er núna búin að bjóða í allsherjarjólapartý í desember. Matur, diskó og ókeypis vín allt kvöldið. Og mig langar til að fara í einhverju alveg spes. Mig langar ekki í LBD eins og ég veit að allar hinar corporate druslurnar sem ég er að vinna með ætla í. Nei, mig langar til að nota þetta nýfundna frelsi mitt til hins ýtrasta og fara bara í rokkgalla. Og er núna búin að vera aðleika mér við að púsla honum saman. Hvít blússa og glimmer veski úr Zara, gervileður skinny buxur úr Next, killer háir hælar og svo skreytt með risastóru gullarmbandi. 

Bara þetta að geta farið búð og búð og púslað saman svona búningi er eitthvað sem fær mig til að taka andköf af ánægju. Og það er líka eitthvað sem gerir mig þakkláta fyrir að hafa verið feit. Ef ég hefði aldrei verið feit þá myndi ég líka ekki skilja hvað þetta eru mikil forréttindi. Að hafa tækifæri til að velja að vera rokkpía á bankaballi. Ótrúlegt. 

1 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Oh hvað ég kannast við þetta. Er að vísu búin að vera föst í nánast sömu þyngdinni í 8 mánuði en mikið assgoti er gaman að kaupa sér svartar skinny jeans, smella sér í leðurstígvél yfir og svo flottan bol sem maður girðir ofan í.

Það eru sannarlega forréttindi að geta litið í spegilinn og hugsað "vó hvað þú ert mikil gella" :)