Ein af stelpunum á tíu kílómetra námskeiðinu var viku á eftir áætlun og átti eftir að hlaupa sitt lokahlaup. Hún fann hvergi skipulagt hlaup og var ekki jafn heppin og ég að hafa vinkonu til að hlaupa með sér og hvetja sig áfram. Ég og tvær aðrar á námskeiðinu buðumst þessvegna til að hlaupa með henni í anda. Hún býr í Ástralíu þannig að tímamismunurinn var of mikil til að gera það alveg nákvæmt en engu að síður þá vaknaði ég í morgun klukkan sex og rauk út með það í huga að bara hafa gaman að þvi að hlaupa. Ég var ekki með neina áætlun í huga, ekki með neitt tímamarkmið, ég meira að segja sá ekkert sérstaklega fyrir mér að hlaupa alla tíu kílómetrana, ég ætlaði bara að vera úti að hlaupa til að styðja vinkonu.
Ég horfði á sólina koma upp sem er alveg spes fyrir mig af því að ég er vanalega hlaupin og farin áður en hún kemur upp. Ég hlustaði á fuglana syngja og greip eina dömu sem var "doing the walk of shame", glimmerkjóll og maskari út á kinn. Ég fór örlítið nýja leið, heilmikið hæðótta en sá líka ref. Svo áður en ég vissi af pípti tækið til að láta mig vita að ég hafði hlaupið í klukkutíma. Ég leit á það og sá að ég hafði farið 8.6 km og því engin ástæða til að hætta. Ég ákvað meira að segja að haska mér aðeins til að athuga hvort ég gæti ekki náð þessu á undir 70 mínútum. Og jú, það tókst; 69:28. Frábært! Núna ætla ég að láta þessi lengri hlaup í friði fram að kapphlaupinu og einbeita mér bara að valhoppinu og þeim æfingum.
Ég er smávegis þreytt í hnjánum. Ég finn að ég er að leggja dálítið á þau núna. Er þessvegna líka voða fegin að ég er (hægt og rólega) að skafa af mér spik aftur núna.
Þegar ég fór í sokkubuxurnar eftir sturtu í morgun fann ég ægilega til í einni tánöglinni. Ægileg eymsli og þrýstingur. Getur verið að ég sé að fá svona hlauparaneglur sem verða svartar og detta svo af? Það væri nú aldeilis spennandi! Ég myndi rífa mig úr og sýna við hvaða tækifæri og ótækifæri sem er.
Þetta er samt allt að verða eðlilegra. Ég þarf ekki jafn svakalega mikið á viðurkenningunni og aðdáuninni að halda núna og fyrst þegar ég byrjaði. Það er eiginlega það skrýtnasta við þetta. Tilfinningin um að þetta var mér svo framandi og svo ótrúlegt að ég þurfti að fá klapp og hrós við hvert skref er farin. Núna nýt ég þess bara að hreyfa mig og þó ég sé stolt af vegalengdunum þá er það líka að verða eðlilegt. Hver hefði trúað því að það að setja einn fót fram fyrir hinn og endurtaka það svo færði manni svona mikið?
2 ummæli:
Geðveikt hjá þér að geta hlaupið 10km sex dögum eftir fyrsta skiptið. Þú ert bara algjört æði.
Það er svo hvetjandi að lesa skrifin þín. Eg vona að einn daginn verði ég jafn dugleg og þú að hlaupa.
www.gigtarplagan.blogspot.com
Skrifa ummæli