mánudagur, 14. nóvember 2011

Ferðin til London var epísk eins og ég hafði spáð fyrir. Ég lagði af stað beint úr vinnu á föstudag og fór beint frá Chester í gegnum Crewe og Milton Keynes til Euston. Þar tókst mér þrátt fyrir að vera sveitalubbi að þræða mig í gegnum tvær Underground stöðvar þar sem ég svo hitti Ástu í Kensington og hún byrjaði á að fara með mig í Whole Foods. Orgasmískur áfangastaður fyrir matarperra eins og mig, ég rölti um rekkana með skoltana gapandi. Ég gat ekki staðist freistinguna og keypti Lúcuma duft og hrátt kakósmjör sem ég ætla að gera smá tilraunir með. 

Þaðan var svo farið með mig á Wagamama. Þar lærði ég að borða núðlur með prjónum eins og sést á einbeitningunni og  fékk að smakka saltaðar edamame baunir. Ég hugsa að líf mitt verði aldrei samt aftur. Ég á núna eftir að eyða öllum mínum  frítíma í að finna ferskar edamame hérna í ómenningunni. Og ekki voru núðlurnar af verri endanum. 

London sést best úr strætó. Og við Ásta vorum svo lukkulegar að fá alltaf sæti fremst uppi, þannig að öll helstu kennileyti blöstu við á ferðum okkar um hin ýmsu hverfi borgarinnar. Það er náttúrulega svo ofboðslega gaman að heimsækja borg með "innfæddan" leiðsögumann, maður sér svo miklu, miklu meira en það sem túristastaðirnir bjóða upp á. 

Á laugardagsmorgun var túban nýtt til að komast í Queens Park þar sem Soca tíminn fór fram. Ég var ægilega hress í joggaranum á meðan Lundúnarbúarnir grúfðu sig afundnir í morgunblöðin. 

Soca er erfiðasta líkamsrækt sem ég hef nokkurn tíman farið í. Nútíma kalypsó tónlist á fullum styrk og svo hoppandi stuð á meðan maður sveiflaði járnum, hoppaði upp og niður, sveiflaði mjöðmum, gerði magaæfingar frá djöflinum sjálfum og æpti og gólaði með hinum í tímanum. Þetta var geðveikt. Stemningin ótrúleg og allir með. Upp úr miðjum tíma var ég farin að skjálfa á beinum og ég rann orðið til í svitanum sem draup á gólfið. Þetta var svakalegt og ég er núna harðákveðin í að vera duglegri að gera líkamsþyngdaræfingarnar mínar; ég get greinilega bætt þolið heilmikið. Við héldum svo á kaffihús og fengum okkur verðksuldaðan kaffibolla og samloku. 

Á rölti um London fann ég svo asics hlaupabúðina og skoðaði allt fína dótið sem maður gerur fengið til að hjálpa manni  til að hlaupa betur. Eða þá að maður getur bara keypt sér dótið frá í fyrra á hálfvirði og lagt meira í að fara bara út og gera sitt besta. 

Soho að degi til er áhugaverð en verður áhugaverðari eftir því sem  líður á nóttina. 

Laugardagskvöld er svo tilvalið til að fara til Camden og fá sér  karibískan mat. Ásta og kærastinn hennar fóru með  mig á Cotton sem er svakalega skemmtilegur veitingastaður sem sérhæfir sig í karabískum mat og rommi. Rommpúns, rommskot, saltfiskbollur, rommskot, lamb og sæt kartöflumús og plantain, rauðvín og romm. Plantain er svipað banana útlits en er steikt og borið fram sem meðlæti með mat. Alveg hrikalega gott og ég á eftir að gera tilraunir með það hér heima. Þaðan héldum við svo í miðbæinn og á Bar Salsa þar sem tequilað var tekið til smökkunar og salsinn dunaði. Ég hafði ekki undan að dansa við hvern herramanninn á fætur öðrum, mér var boðið upp aftur og aftur og ég skal viðurkenna fúslega að fitubollan inni í mér sem aldrei var boðið upp var ægilega glöð. Það er ekki leiðinlegt að vera talin álitlegt fljóð. 

Það var svo nauðsynlegt að taka einn hring um dónahverfið og skoða það sem í boði var.  

Sunnudagsmorgun rann svo upp aðeins fyrr en ég vildi. Hálfþunn og með svakalegar harðsperrur eftir Soca tímann og hnéð hálf laskað eftir salsa var lagt af stað í Brockwell Park í Brixton til að hlaupa mitt fyrsta 10 kílómetra hlaup. Ég var ekki eins vel stemmd og best var á kosið en ég var komin til að hlaupa og ætlaði ekki að gefast upp. Sólin skein í heiði og andavarinn var hressandi. Fullkomið til hlaupa. Eftir aðeins 600 metra var ég við að gefast upp. Ég fann ekki taktinn og kom engri stjórn á andardráttinn. Ég reyndi að hægja á mér en allt fyrir ekki. Við annan kílómetra var ég farin að segja við Ástu að ég gæti þetta ekki. Hún sagðist ekki hlusta á svona vitleysu og áfram héldum við. Við fjórða kílómetra var ég farin að fá angistarkast, ég gat enn ekki stjórnað andardrættinum og þetta var svo erfitt. Eftir fimm km vorum við búnar að fara einn hring um garðinn og vorum byrjaðar á seinni hringnum. Þegar aftur kom að brekku varð ég að hægja alveg á mér og að lokum þurfti ég að labba aðeins. Ásta hvatti  mig stanslaust áfram, minnti mig á hvað ég hafði gert til að komast hingað, hvað ég hef náð langt og hvað ég ætti eftir að gera meira. Á tímabili þurfti hún beinlínis að toga mig áfram. Þegar við svo fórum út úr garðinum var bara einn og hálfur kílómetri eftir og ég sá að ég myndi geta þetta. Ég hljóp ofurhægt og þetta var ennþá hræðilega erfitt en ég var farin að finna taktinn og ég var farin að finna gleðina. Á níunda kilómetra tókst mér svo meira að segja að hraða aðeins á mér þó það hafi verið of seint, ég var búin að sóa of miklum tíma í labb til að ná tímanum sem ég hafði sett mér. Við kláruðum svo 10 km á 75 mínútum. Og ég grenjaði eins og smábarn. Þetta var svona eins og myndlíking fyrir allt sem ég hef verið að gera. Ég hef ekki farið auðveldustu leiðina, ég hef ekki alltaf farið beinustu leiðina, ég geri stanslaust mistök en ég kemst að lokum á leiðarenda. Og ég hefði að sjálfsögðu ekki getað þetta  án Ástu, hún minnti mig á hvað þetta snýst allt saman um og hún hvatti mig áfram allan tíman. Er eitthvað dýrmætara en góður vinur?

Gleðin og léttirinn nánast áþreifanlegur. 

Þrekrauninni lokið og ég er búin að gera mér grein fyrir því að þetta er líka bara byrjunin. 

Eftir sturtu og smá teygjur var svo haldið á Ritzy, sögufrægt kaffihús í Brixton. Ég gæti sjálfsagt lifað lífinu bara farandi á milli kaffihúsa, ég held ég viti fátt skemmtilegra. 

Sveitadurgurinn svo búin að ná tökum á túbunni að ég  fékk módelmynd með hana í bakgrunni. Ekkert mál!

Við fórum svo á Paul´s sem er franskt bakarí sem hefur verið í London síðan 1889. Þar fékk ég loksins að prófa macaroon,  eitthvað sem ég er búin að bíða eftir að smakka síðan ég fór að lesa matarblogg af áfergju. Og ekki var ég svikin, þær voru æðislegar. 

Þeir eru við að setja upp jólin í Covent Garden, og ég ekki frá því að ég hafi komist í smá jólaskap.

Legs of London. 

Við enduðum svo sunnudagskvöldið á ekta ítalskri pizzu, post-hlaup kolvetnin  alveg að gera sig. Nett rauðvínsglas með til að skála fyrir afrekum helgarinnar. 

Svo var ekkert að gera en að halda heim á leið eftir skemmtilegustu og eftirminnilegustu helgi  sem ég hef upplifað. Það var margt skrafað og ráðgert og ég upplifði einn af merkilegri atburðum lífs míns. Þetta var awesome! London baby indeed. 

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman hjá ykkur! Til hamingju með frábæran árangur. Þið eruð æði!!!!
Love, Lína

Erla sagði...

Til hamingju með 10 kílómetrana. Mundu að þó að þetta hafi verið erfitt að þá hljópstu 10 km. Fyrir manneskju sem hleypur ekki þá finnst mér fjári magnað að geta hlaupið 10 km.

Inga Lilý sagði...

Innilega til hamingju með kílómetrana 10!!!! Þetta var ekkert smá vel af sér vikið hjá þér og þú átt að vera stolt af þér að klára þá.

Ég er byrjuð að æfa fyrir maraþonið í febrúar og eitt sem ég las í maraþonbókinni minni var að eina markmiðið fyrir fyrsta maraþonið á að vera að klára maraþonið!! Ef þú ert með einhver tímamarkmið þá verðurðu svekktur að ná þeim ekki sem er alveg út í hött þar sem þú varst að klára heilt maraþon. Svo til að skemma ekki "sense of accomplishment" þá á EINA markmiðið að vera að klára!! Og það gerðir þú svo sannarlega með stæl. Vertu stolt af því að klára 10 km. Svo þegar kemur að alvöru hlaupinu í desember þá geturðu haft það að markmiði að bæta síðasta tímann.

Og Eda Mame eru bestu baunir í heimi. Þær eru alls ekki síðri frystar og geymast best þannig (season-ið í Japan er bara um 3 mánuðir eða svo en maður getur alltaf fengið þær frosnar utan season). Sjóða þær, smella smá sjávarsalti yfir, jafnvel smá soja og svo njóta með ííísköldum bjór! :) Dætur mínar elska eda mame og þetta er besti eftirmaturinn sem þær vita um..

Vertu stolt af þér og haltu áfram á sömu braut.

Nafnlaus sagði...

looking good girl! man mína fyrstu tíu. hlaupnir 2007, og var ég veeel vínlegin eftir ævintýralega berlínarreisu. náði að klára á 59mín, og var það með tveimur klósettstoppum :).

gangi þér vel með framhaldið, gullfallega!

mkv, sigga dóra

Guðrún sagði...

Vá.....hvað ég er stolt af þér, montin af þér og hreykin af þér. Ég sit hér grenjandi yfir blogginu þrátt fyrir að vera búin að heyra ferðasöguna. Duglega, duglega stelpan mín. Ég er líka að pæla í henni Ástu minni....getur hún allt?

Nafnlaus sagði...

Þú ferð svo sannarlega ekki auðveldustu leiðina! Hlaupa 10 km hálfþunn, ertu brjáluð?! :D Mátt vera extra stolt af þér fyrir vikið... það hlýtur að hafa verið margfalt erfiðara!!!!!

Vel gert!

Kveðja,
Soffía (dyggur lesandi sem þekkir þig ekki neitt :))

Nafnlaus sagði...

ohhh ædislegt ad lesa ferdasøguna og sjá myndir - tid erud náttúrulega bara yndi bádar tvær :-)
Knús
H

Nafnlaus sagði...

vá snillingur! stendur þig svo vel :) og lítur svo vel út!!! rosa hvetjandi að hafa svona fyrirmynd ;)

kv. Guðrún (ókunnugur aðdáandi)

Shauna sagði...

Oh wow that all sounds like so much fun. Macarons, SNOGs and Caribbean food? Oh yeah and the running thing too. You are positively glowing in the photos! :)

(PS I loooove edamame too but have only been able to find it frozen (generally labeled as soy beans) and already podded! Ripping them out of the pods with your teeth and tongue is the very best part! Let me know if you find them anywhere! :) )

Nafnlaus sagði...

Great blog right here! Also your web site quite a bit up very fast!
What host are you using? Can I am getting your affiliate hyperlink on your host?

I desire my website loaded up as fast as yours lol

Feel free to visit my blog: laser cellulite treatment