sunnudagur, 22. mars 2009Þá er fyrsta tönnin farin og hefur skilið eftir skarð í neðri góm. Lúkas sem er vanalega stressaður yfir smá slysum og blóði er alveg stóískur yfir tannleysinu. Ég er eiginlega alveg hissa.

Hér er svo mæðradagur í dag, og hefð fyrir að gefa kort, blóm og súkkulaði. Ég er nú lítið fyrir svona vesen en verð að viðurkenna að ég var hrærð yfir kortinu sem sonur minn bjó til og gaf mér. Hann hafði greinilega lagt alla sína ást í það og var svo stoltur af verklaginu. Við þurftum svo að fara með kort til Heather eða hún hefði aldrei talað við okkur aftur. Dave bjó kortið reyndar ekki til, en það var keypt til að þóknast smekki hennar; það var skreytt með bleikum böngsum með hjörtu og blóm og blöðrur og glimmer stafir sem stöfuðu MUM. Ég tek út fyrir að þurfa að kaupa og gefa svona óskapnað en stundum er bara nauðsynlegt að "go native".

Í öðrum fréttum er svo að hér er aftur komin áminning um hversu ljúft það er stundum að búa í útlöndum; hingað er komið vorið með tilheyrandi léttleika. Vetrarkápur komnar inn í skáp og allt orðið iðagrænt. Með vorinu kemur svo aukinn kraftur í að vera úti að stússast, og þar með enn fleiri tækifæri til kaloríubrennslu. Það er fátt jafn gott og kröftug ganga í góðu veðri.

1 ummæli:

Harpa sagði...

já það er nú nett gaman að þessu þó maður hafi nú verið aðeins farin að þreytast á auglýsingum síðustu 4 vikna. Katrín bjó til leirstjörnu í leikskólanum og skreytti með rauðum glimmer. Þetta kom hún með uppí rúm til mín í gærmorgun og æpti happy mothersday. Ég opnaði pakkann í rúminu og fékk allan rauða fína glimmerinn yfir mig og rúmið. Var bara mjög skrautleg í gær. Á maður ekki alltaf að vera fínn á sunnudögum??