sunnudagur, 6. nóvember 2016

Ristað brauð með marmelaðiÉg tók þessa mynd á fimmtudagskvöldið síðasta. Ég var á hótelherbergi í Edinborg, við að fara á verðlaunaafhendingu í vinnunni. Ég er 97 kíló á myndinni og hefur sjaldan eða aldrei þótt ég jafn sæt. Ég er búin að skoða þessa mynd síðan ég tók hana til að reyna að skilja afhverju mér líður svona vel með sjálfa mig. Við vitum öll að 97 kíló er allt of þungt fyrir konu sem er 167 centimetrar að hæð og það er ekki eins og ég sé grönn. Ég hef líka bæði verið grennri og í betri þjálfun en ég er núna en engu að síður held ég að mér hafi sjaldan liðið betur, í líkamanum. Mér finnst ég vera "powerful". Ég get ekki þýtt orðið því ég á ekki við að ég sé kraftmikil en heldur ekki valdmikil. Kannski að þróttmikil sé besta orðið? Powerful að því leytinu að ég hef kraft inni í mér, ég hef vald yfir sjálfri mér og ég er full af þrótti. 

Það eina sem mig hefur alltaf langað er vera venjuleg. Mig langaði svo til að geta bara fengið mér að borða án þess að "líða" einhvernvegin með það. Að það að borða væri bara það; matur í munn, orka í kropp, búið bing bing bing bong. En allur tíminn sem ég hef eytt í að setja orthorexiu reglur hafa kannski skilað árangri á vigtinni en venjulega markmiðið fjarlægðist stöðugt. Ég held að núna þegar ég er búin að fjarlægja allar reglur sé eins og þetta markmið sé í sjónmáli. Ég þarf stanslaust að minna mig á hvað ég er að reyna að gera. Minna mig á að athuga hvort ég sé svöng, spurja sjálfa mig hvað ég er að reyna að fylla þegar ég borða þegar ég er ekki svöng og vinnan sem fer í að fyrirgefa sjálfri mér þegar ég borða er gífurleg. En þetta er allt að koma. 

Ég ristaði brauð í morgunmat. Tvær brauðsneiðar, af því að það er pláss fyrir tvær sneiðar í vélinni og það er asnalegt að gera bara eina. Setti marmelaði og ost á sneiðarnar, hellti upp á kaffi og settist við eldhúsborðið til að borða. Borðaði hægt og róleg og naut hvers bita. Þegar ég var byrjuð á seinni sneiðinni datt mér allt í einu í hug að það að rista tvær sneiðar væri kannski bara eitthvað sem fitubollur gera. Kannski finnst mjóu fólki í lagi að hafa eitt ristiplássið autt? Hvað ef ég rista alltaf tvær og borða svo tvær bara af því að brauðið er núna fyrir framan mig? Ég byrja að þreifa fyrir mér í smá panikki til að tjékka hvort ég sé enn svöng. Jú, tvær sneiðar virðast vera rétta magnið en hvað ef ég ætti bara að gera eina sneið fyrst og svo aðra ef ég væri enn svöng? Hvað gerir mjótt fólk??? Spáir það í þessu???? Ég reyni að róa mig niður, slakaðu á segi ég við sjálfa mig. Njóttu sneiðarinnar, manst að þú er sátt, þú veist hvað þú ert að gera. 

Jú, þetta er allt að koma en samt. Það er erfitt að stanslaust þurfa að spá svona í þessu. Ég horfi á myndina af sjálfri mér og hugsa með mér að þetta allt, þessi vinna hlýtur að vera þess virði fyrir að smá saman líða betur, og að lokum vera sátt við mig eins og ég er núna.

3 ummæli:

Shauna sagði...

Yes yes yes to all this, gorgeous woman.

murta sagði...

Thanks Shauna, and kudos on using translator!

Nafnlaus sagði...

Ég þekki þig ekki, en dett hérna inn annað slagið og þegar ég sá myndina hugsaði ég "vá hvað hún lítur vel út". Hélt þú værir búin að missa heilan helling af kg sem þú segir ekki vera, ætli þú sért ekki bara heilbrigð og hamingjusöm?