Ég hef alveg gleymt að fagna hversu vel mér hefur tekist upp. Í öllum æsingnum við að reyna að ná næsta áfanga
á ég það til að gleyma algerlega að ég er nú þegar komin í hóp elítunnar. Ég er í hópi þeirra þriggja prósenta fólks sem nær að skafa af sér töluverðu magni af spiki og halda því af sér lengur en í ár. Ég held að ég gleymi því hvað ég hef gert vel vegna þess að þetta er enn stanslaus vinna. Það er enginn munur á vinnunni sem ég er að leggja í að viðhalda núverandi þyngd og vinnunni sem ég lagði í að léttast um 40 kiló. Þetta er nákvæmlega jafn mikið streð.
Ég er að skilja að þrátt fyrir að hafa sagt annað þá hélt ég inni í mér að ég myndi einn daginn verða mjó og að allt myndi "lagast" við það. Og af því að ég er stanslaust að bíða eftir þessi mómenti, þessu andartaki sem ég get andað frá mér og slakað á og sagt; "ég er mjó og allt er ókei" þá gleymi ég að stoppa við til að njóta mómentsins sem er núna. En ég er smá saman að láta af þessari hugmynd. Maður getur bara dregið inn magann í visst langan tíma.
Þegar ég hugsa um þetta allt saman í þessu samhengi að þetta sé "endalaus vinna" þá læt ég þetta hljóma eins og þetta sé eintóm kvöð eða pína. Ég held að oft heyrist bara kvörtunar "ó mig auma" tónninn í mér. Það er bara ekki rétt lýsing á því hvernig mér líður. Síðastliðin þrjú ár hafa verið stórfengleg. Ég á erfitt með að lýsa hvað líf mitt hefur tekið miklum stakkaskiptum til hins betra. Ég er langt í frá að vera fullkomin og ég ströggla á hverjum einasta degi með eitthvað og það kemur mér stanslaust á óvart hvað þetta krefst mikillar natni og athygli. En þegar ég hugsa um líf mitt núna og líf mitt eins og það var áður þá er með ólíkindum hvað það er mikið betra núna.
Og það er það sem mig langar til að fagna. Hversu heppin ég er að hafa fengið tækifæri til að leggja í þessar breytingar. Hversu ríkara líf mitt er núna.
2 ummæli:
Þú ert mér mikil hvatning. Ég er 100 kg og er að byrja á hlaupanámskeiði, langar svo að geta reimað á mig skóna og farið bara út að hlaupa eins og ekkert sér sjálfsagðara!!
Les alltaf bloggið þitt og finnst þú frábær penni, gaman að fylgjast með þér og pælingum þínum.
Þakka þér fyrir og sömuleiðis; það er mér mikil hvatning að vita að ég sé ekki að stússast í þessu ein :)
Gangi þér vel með hlaupin og mundu að gaman af. Láttu mig vita hvernig gengur.
Svava Rán.
Skrifa ummæli