sunnudagur, 13. maí 2012

Eftir rúmt ár með gömlu löppuna mína algerlega á afturfótunum gafst hún loks alveg upp núna í vikunni og neitaði að gera nokkurn skapaðan hlut. Svona dálítið eins og ég á sunnudögum. Það var um lítið að ræða annað en að fara og kaupa sér skínandi nýja tölvu. Enda er ég orðin svo stöndug núna, deildarstjóri hjá banking grúpp. Það munar um minna.

Ég er voðalega visjúal manneskja. Ég hef alltaf "séð fyrir mér" hvernig hlutirnir eiga að vera. Þannig er ég alltaf með í huga ákveðna samsetningu á fötum, ég er með í huga "lúkkið" sem ég er að reyna að ná. Ég sé fyrir mér aðstæður og atburði og reyni svo að gera mitt besta til að stjórna hlutunum þannig að þessar fyrirfram ákveðnu myndir sem ég hef í huganum rætist. Þannig er ég loksins núna búin að finna mér minn stíl. Ég veit nákvæmlega hvernig ég vil klæða mig. Og ég er rétt á mörkunum núna þar sem ég passa í fötin sem ég vil vera í. Ég er að fara að taka við ábyrgðarstöðu og ég er ein af þeim sem trúir því að fötin skapi manninn. Ég vil vera velklæddur stjórnandi. Mér finnst það eiginlega vera lágmarkskrafa að vera smart og fín í vinnunni.
Ég er líka á leiðinni til Kaupmannahafnar í lok september. Þangað hef ég aldrei áður komið og fyrir utan að hlakka til að eyða langri helgi með yndislegum stelpum þá sé ég sjálfa mig fyrir mér í Kaupmannahöfn. Ég ætla að hlaupa með Hönnu og ég ætla að kaupa mér vetrarkápu í smart en dálítið edgy stíl sem einhver fínn Dani hefur hannað. Og vetrarkápan sem ég er búin að bíða eftir að kaupa í tvö ár krefst þess að ég sé grennri en ég er núna. Ég sé það fyrir mér.
Við ætlum í sumarfrí til Maplethorpes í júlí. Á sumarleyfisstaðnum er klifurveggur. Ég sé mig fyrir mér klífa vegginn. En ég er í huganum mun léttari en ég er núna.

Um allt þetta hugsaði ég á langa hlaupinu mínu í morgun. Og ég setti upp fyrir mig plan þar sem ég er orðin nógu mjó í lok september til að geta verið í stílnum sem ég vil vera í. Og á sama tíma og ég var að setja það upp fyrir mig var ég að hugsa um að fyrst ég væri komin með svona fínt plan þá væri ekkert að því að fá mér Chunky KitKat í dag. Fresta plani um einn dag. Helmingurinn af heilanum var að plana kalóríur sparaðar, hinn helmingurinn planaði sukk og svínarí. Á sama tíma!

Ég skil ekki alveg afhverju ég finn ekki hvatninguna sem virkar fyrir mig núna. Þetta sem þarf til að maður komi þessum litlu breytingum inn í daglega lífið. Það virðist ekkert hreyfa mig til starfa, hvorki innri hvatning né ytri. Heilsan og hreystið, útlitið og ábyrgð gagnvart þeim sem hafa trú á mér, ábyrgð gagnvart eiginmanni mínum sem þarf á því að halda að ég beri ekki í hann óhollustsu, löngun í stílinn minn, ekkert er nóg til að láta mig sleppa KitKatinu.

Mér datt í hug að nota það sem kom mér af stað í byrjun. Og það er svo basic, svo mikið grundvallaratriði að mér finnst nánast vandræðalegt að segja frá því. Mér fannst einfaldlega svo gaman að sjá tölurnar fara niður á við og prósentuna upp á við á excel skjalinu mínu. Það var svo gaman að sjá svona á blaði hvernig öll vinnan mín var að gera sig. Ég hlakkaði til að vigta mig.

Þannig að enn einu sinni ætla ég að fara gegn öllu því sem prédikað er af þeim sem vita betur núna. Og hlakka til að vigta mig.

Engin ummæli: